Háskólinn heldur upp á aldarafmæli

Helga Nína Þórðardóttir og Gylfi Þór Hassing, sem bæði eru …
Helga Nína Þórðardóttir og Gylfi Þór Hassing, sem bæði eru 5 ára nemar við leikskólann Mánagarð, opnuðu nýjan aldarafmælisvef Háskóla Íslands í dag með Katrínu Jakobsdóttur, mennta- og meninngarmálaráðherra. Kristinn Ingvarsson

Háskóli Íslands heldur upp á aldarafmæli sitt á þessu ári. Af því tilefni kynnti Kristín Ingólfsdóttir, rektor skólans, í dag nýja stefnu skólans til næstu fimm ára  og sagði, að í stefnumótun skólans væru ítrekuð þau meginmarkmið að koma honum í fremstu röð. Til þess sé nauðsynlegt að verja umtalsvert meiri fjármunum en skólanum séu nú ætlaðir.

Háskóli Íslands var stofnaður á Alþingi 17. júní 1911. „Ef við lítum 100 ár aftur í tímann sjáum við hvað framtíðarsýn, stórhugur og einbeittur vilji gátu kallað fram við miklu þrengri aðstæður en samfélagið býr við í dag. Við heitum á þá sem leiða íslenskt samfélag í dag að sýna sama vilja og sama hug,“ sagði Kristín.

Hún sagði að háskólinn muni nú leita samstarfs við stjórnvöld um að hrinda þessari stefnumótun í framkvæmd. Á fundinum opnaði Katrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, nýjan aldarafmælisvef Háskóla Íslands.

Fram kom í máli Kristínar, að heimsþekktir vísindamenn, þar á meðal Nóbelsverðlaunahafar, muni halda fyrirlestra við Háskóla Íslands á afmælisárinu. Þá muni háskólinn fara víða um landið með lifandi dagskrá, haldnir verða opnir veffyrirlestrar, stúdentar efna til litríkrar dagskrár um ungmenningu, sérfræðingar háskólans í menntamálum heimsækja skóla landsins, vísindamenn bregða sér í hlutverk leiðsögumanna í skipulegum gönguferðum, opið hús verður í Háskóla Íslands í næsta mánuði og efnt verður til samstarfs við menningarstofnanir og söfn.

Þá verður gefini út aldarsaga Háskóla Íslands og efnt til umræðu um helstu áskoranir 21. aldarinnar á sérstöku hátíðarmálþingi í október.  

Afmælisvefur Háskóla Íslands

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert