Hugsa þarf veggjöld upp á nýtt

Mörður Árnason.
Mörður Árnason. mbl.is

Mörður Árnason alþingismaður Samfylkingarinnar, segir að byrja þurfi upp á nýtt að skipuleggja stórframkvæmdir sem áður átti að fá lífeyrissjóðina með í og fjármagna með veggjöldum.

Hann segir að þetta liggi fyrir eftir fund um vegaframkvæmdir og fjármögnun sem haldinn var með alþingismönnum og sveitarstjórnarmönnum í innanríkisráðuneytinu í gær. Samstaða hafi verið um þetta á fundinum.


„Lífeyrissjóðirnir eru hættir við – nema þá sem hugsanlegir lánveitendur með eins háum vöxtum og hægt er – og á fundinum í dag varð alveg skýrt að veggjöldin sem til stóð að setja á eiga ekkert skylt við framtíðarmúsík um notendagjöld sem komi í staðinn fyrir skatta á bensín og olíu á nýjum og fögrum umhverfistímum. Þau eru miklu lengra undan.

Planið sem eftir stendur er einfaldlega að láta þá borga fyrir framkvæmdirnar – 29 milljarðar á Suður- og Vesturlandi, að höfuðborgarsvæðinu ógleymdu – sem aka vegina. Það verða engar hjáleiðir, og heldur enginn teljandi sparnaður við minni orkukaup og bílslit einsog er við Hvalfjarðargöngin – menn eiga bara að borga sérstaklega fyrir að keyra þessa vegi.

Sveitarstjórnarmenn og þingmenn voru nánast á einu máli um að þetta gengi ekki svona. Ef það þyrfti að borga sérstaklega fyrir vegabætur á Suðurlandsvegi, Vesturlandsvegi og Reykjanesbraut hlyti að þurfa að gæta jafnræðis – annaðhvort með öðruvísi fjármögnun, það er að segja öðrum sköttum, eða þá gjaldi á veganot alstaðar á landinu,“ segir Mörður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert