Mjög slæmt veður er um mestallt land. Það er óveður undir Eyjafjöllum, við Ingólfsfjall, á Hellisheiði og í Þrengslum. Óveður er á Kjalarnesi, við Akrafjall og Hafnarfjall og eins á sunnanverðu Snæfellsnesi en stórhríð í ofenverðum Borgarfirði og í Dölum.
Snjóþekja er milli Tálknafjarðar og Patreksfjarðar en þæfingur á Kleifaheiði og Hálfdáni. Á Vestfjörðum er þó víðast hvar beðið með mokstur vegna veðurs. Á Norðurlandi má heita að allsstaðar sé stórhríð og ekkert ferðaveður. Þar er beðið átekta með mokstur.
Á Austurlandi er óveður á Vopnafjarðarheiði og stórhríð á Fjarðarheiði. Það er fært yfir Fagradal og þæfingsfærð á Oddsskarði en þarna er þó mikill skafrenningur. Á Suðausturlandi eru vegir auðir vestan Hafnar en það er óveður við Lómagnúp og á Mýrdalssandi.
Ábendingar frá veðurfræðingi
Veðrið gengur lítið niður a.m.k. fyrir hádegi. Fer að draga úr ofanhríðinni um miðjan daginn á Vestfjörðum, í Dölum og vestantil á Norðurlandi, en áfram þó hvasst og skafrenningur. Meira og minna ofanhríð í dag og afleitt skyggni frá Siglufirði að telja og austur á firði. Allra austast hefur náð að hlána í bili á láglendi, en frystir fljótlega aftur með snjókomu.
Snarpar vindhviður á Kjalarnesi fram á kvöld og allt að 45 m/s fram yfir hádegi. Sama má segja um sunnanvert Snæfellsnes. Hviður einnig allt að 45 m/s undir Eyjafjöllum og við Lómagnúp. Suðaustanlands hefur veður hins vegar að mestu gengið niður.