Mjólk að klárast á Seyðisfirði

Fjarðarheiði hefur verið ófær næstum í tvo sólarhringa. Myndin er …
Fjarðarheiði hefur verið ófær næstum í tvo sólarhringa. Myndin er úr myndasafni. mbl.is/Helgi Garðarsson

„Mjólkin er alveg á þrotum,“ sagði Ásdís Benediktsdóttir, verslunarstjóri í Samkaup Strax á Seyðisfirði. „Við áttum 20 fernur í morgun og höfum látið eina fernu á heimili. Það fá allir mjólk sem vantar mjólk.“ Ásdís sagði að nóg sé til af G-mjólk, rjóma, gosdrykkjum og öðrum vörum. 

„Þetta hefur ekki skeð síðan ég veit ekki hvenær,“ sagði Ásdís um ófærðina yfir Fjarðarheiði sem lokaðist á miðvikudagskvöldið var. Hún sagði ekkert ferðaveður á heiðinni og ekki að búast við því að hún opnist fyrr en veðrið batnar. Hún sagði að nú sé hálfgerð slydda og fólk hafi hægt um sig.

Ásdís sagði að mjólkin komi ekki lengur frá Egilsstöðum, því þar er ekkert mjólkurbú lengur, heldur komi mjólkin frá Akureyri. Leiðin millii Austurlands og Norðurlands er einnig kolófær. „Þó að það verði fært yfir heiðina þá er ófært til Akureyrar,“ sagði Ásdís. „Í dag þyrfti Mjólkursamsalan að vera komin aftur á Egilsstaði!“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert