Óveður á Kjalarnesi og undir Hafnarfjalli

mbl.is/Ómar

Vegagerðin ráðleggur fólki sem er á leiðinni í Herjólf að aka að Bakkaflugvelli og þaðan í Landeyjahöfn. Það segir í tilkynningu frá Vegagerðinni að óveður sé á Kjalarnesi og undir Hafnarfjalli. Að sögn Veðurstofu Íslands er búist við stormi á miðhálendinu fram á nótt.

Víða sé hvassviðri og slæmt ferðaveður, einkum þó norðan- og vestanlands. Mjög snarpir vindstrengir séu við fjöll sunnan og vestan til fram eftir kvöldi.

Á Vesturlandi eru hálkublettir á Bröttubrekku og í Gilsfjörð og á Holtavörðuheiði, skafrenningur og éljagangur.

Á Vestfjörðum er hætt við mokstur í dag um Ísafjarðardjúp, Steingrímsfjarðarheiði, Þröskulda og Klettsháls. Það eru hálkublettir á Kleifaheiði, Mikladal og Hálfdáni. Nú er orðið fært á milli þéttbýlisstaða á norðanverðum Vestfjörðum.

Á Norðurlandi vestra er orðið fært um þjóðveg 1, hálka, hálkublettir og skafrenningur. Á Öxnadalsheiði er þæfingur og skafrenningur. Hálkublettir og skafrenningur er á Siglufjarðarvegi.

Á Norðausturlandi er þæfingur og skafrenningur frá Akureyri í Dalvík en beðið með mokstur á öðrum leiðum.

Á Austurlandi er ófært á Vopnafjarðarheiði en þungfært og skafrenningur um Fjarðarheiði. Þá er stórhríð á Jökuldal og Skriðdal og ekki ferðaveður. Snjóþekja og skafrenningur er á Fagradal, Oddsskarði og með ströndinni. Þæfingur og skafrenningur er á Vatnsskarði eystra.

Á Suðausturlandi eru vegir auðir vestan Hafnar en snjóþekja frá Höfn í Breiðdalsvík. Það er óveður við Kvísker og undir Eyjafjöllum.

Ábendingar frá veðurfræðingi

Þó vind sé heldur tekið að lægja á Norður- og Austurlandi er engu að síður áfram gert ráð fyrir snjókomu og víða mjög takmörkuðu skyggni þar til seint í kvöld en í nótt gengur veður mikið niður.

Skafrenningur og él á Vestfjörðum og við Breiðafjörð, en lagast mikið síðar í kvöld. Suðvestanlands verða enn snarpar vindhviður á Kjalarnesi og sunnanverðu
Snæfellsnesi og jafnvel víðar, allt að 45 m/s fram undir 17-18, en eftir það fer veðurhæðin smám saman minnkandi.

Undir Eyjafjöllum og þar í grennd hefur hins vegar verið að lægja.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert