Sjómannafélag Íslands, Félag skipstjórnarmanna og Félag vélstjóra og málmtæknimanna krefjast þess að Rio Tinto Alcan í Straumsvík semji við skipafélag sem tryggi íslenskum sjómönnum vinnu. Útboðsfrestur vegna álflutninga á sjó fyrir Rio Tinto Alcan rennur út 20. janúar.
Fram kemur í tilkynningu frá félögunum, að ef Rio Tinto Alcan beinir viðskiptum sínum til skipafélags með íslenska sjómenn í áhöfn tryggir það 32 sjómönnum pláss og á annað hundrað manns fyrirvinnu.
Félögin segja, að íslenskir sjómenn hafi í tæp 40 ár séð um flutninga til Evrópu fyrir álverið. Í þenslunni á útmánuðum 2008 hafi álverið hins vegar ákveðið að söðla um að skipta við norska skipafélagið Wilson Euro Carriers „en skip þess sigla undir hentifána með rússneskar áhafnir á smánarlaunum," segir í tilkynningunni.
Þar er síðan vísað til orða Rannveigar Rist, forstjóra Rio Tinto
Alcan í Viðskiptablaðinu um áramótin þar sem hún sagði að sterkur vilji væri til að aðstoða Ísland
við uppbygginguna. „Við hvetjum forstjórann til þess að
standa við orð sín," segja félögin síðan.