Semji við íslensk félög um álflutninga

Álverið í Straumsvík
Álverið í Straumsvík

Sjómannafélag Íslands, Félag skipstjórnarmanna og Félag vélstjóra og málmtæknimanna krefjast þess að Rio Tinto Alcan í Straumsvík semji við skipafélag sem tryggi íslenskum sjómönnum vinnu. Útboðsfrestur vegna álflutninga á sjó fyrir Rio Tinto Alcan rennur út 20. janúar.

Fram kemur í tilkynningu frá félögunum, að ef Rio Tinto Alcan beinir viðskiptum sínum til skipafélags með íslenska sjómenn í áhöfn  tryggir það 32 sjómönnum pláss og á annað hundrað manns fyrirvinnu. 

Félögin segja, að íslenskir sjómenn hafi í tæp 40 ár séð um flutninga til Evrópu fyrir álverið. Í þenslunni á útmánuðum 2008 hafi álverið hins vegar ákveðið að söðla um að skipta við norska skipafélagið Wilson Euro Carriers „en skip þess sigla undir hentifána með rússneskar áhafnir á smánarlaunum," segir í tilkynningunni. 

Þar er síðan vísað til orða Rannveigar Rist, forstjóra Rio Tinto Alcan í Viðskiptablaðinu um áramótin þar sem hún sagði að sterkur vilji væri til að aðstoða Ísland við uppbygginguna. „Við hvetjum forstjórann til þess að standa við orð sín," segja félögin síðan. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert