Skráð á undirskriftalistann gegn vilja sínum

Af síðu undirskriftasöfnunarinnar.
Af síðu undirskriftasöfnunarinnar. www.orkuaudlindir.is

Um tuttugu manns hafa haft samband við forsvarsmenn undirskriftarsöfnunarinnar á www.orkuaudlindir.is, vegna þess að þau voru þegar skráð á listann er þau ætluðu að skrá sig. Verið er að athuga hvort þessar undirskriftir séu falsaðar.

„Það eru alltaf einhverjir skemmdarvargar, það hafa allir aðgang í Þjóðskrá að kennitölum. Það eru kannski einhverjir að reyna að segja að það sé ekkert að marka undirskriftasöfnunina,“ segir Oddný Eir Ævarsdóttir, ein af forsvarsmönnum söfnunarinnar. 

Að sögn Oddnýjar er verið að kanna málið þessa stundina og athuga hvort eitthvað grunsamlegt sé á seyði. Hún segir að þetta sé ekki villa í tölvukerfinu.

„Sumir hafa skráð sig áður - þetta er auðvitað búið að vera í gangi frá því í sumar - og kannski gleymt því að þetta er það sama,“ segir Oddný.

Oddný kveðst ekki hafa mikla trú á því að þetta sé verk skemmdarvarga: „Hvers vegna ætti einhver skemmdarvargur að vinna í því að setja fleiri nöfn á þennan lista? Það verður aldrei meira en bara pínulítil prósenta sem kæmi þannig. Þetta hefur engin áhrif. Þetta eru einstaka tilfelli.“ Nú þegar hafa tæplega 31 þúsund manns skráð sig á listann.

Oddný hvetur alla sem kunna að lenda í svipuðum vandræðum að senda póst á orkuaudlindir@gmail.com. Þá er því einnig beint til þeirra sem vilja ganga úr skugga um að þeir séu ekki skráðir, að senda póst á sama netfang.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert