Verktaki á vegum Siglingastofnunar er byrjaður á framkvæmdum við að flytja ósa Markarfljóts austar en nú er, til að draga úr aurburði fyrir Landeyjahöfn.
Áform Siglingastofnunar um að færa ósa Markarfljóts austur um tvo kílómetra mætti andstöðu landeigenda og þurfti að tilkynna til Skipulagsstofnunar. Siglingastofnun lagði þá fram tillögur að mun minni garði og fékk framkvæmdaleyfi hjá sveitarstjórn Rangárþings eystra.
Verktakinn byrjar á því að veita fljótinu frá vinnusvæðinu. Flóðvarnargarðurinn á að vera tilbúinn áður en vorflóðin bresta á.