„Ég hef ekkert að fela“

Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Hreyfingarinnar.
Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Hreyfingarinnar. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Hreyfingarinnar, óttast að stjórnvöld muni ekki virða þá friðhelgi sem hún nýtur sem þjóðkjörinn fulltrúi Íslendinga. Birgitta hyggst tala á ráðstefnu í Bandaríkjunum í sumar um upplýsingafrelsi. Hún kveðst ekki hafa neitt að fela.

Bandarísk stjórnvöld hafa krafist þess að örbloggsíðan Twitter afhendi öll skilboð Birgittu og þriggja annarra, þar á meðal Julian Assange.

„Ég er að ráðfæra mig við lögfræðinga í Bandaríkjunum um hvort það sé hægt að gera eitthvað til að hindra að þeir fái þessar upplýsingar. Næstu skref eru að ræða við utanríkis- og dómsmálaráðherra betur og ég vil tala við sendiherra Bandaríkjanna og spyrja hvort honum finnist þetta eðlilegt og kvarta yfir þessu. Koma þeim skilaboðum á diplómatískan hátt til Bandaríkjanna,“ segir Birgitta.

„Þetta er mjög alvarlegt, vegna þess að [forsvarsmenn] Twitter börðust mikið gegn þessu,“ segir Birgitta. Samskiptasíðunni barst beiðni bandarískra stjórnvalda þann fjórtánda desember sl. Birgittu var gert grein fyrir málinu laust fyrir átta í gærkvöldi með tölvupósti. Hún hefur fengið tíu daga frest frá vefsíðunni til að bregðast við gjörningnum. Hún segist ekkert hafa að fela, öll hennar skrif á Twitter séu opin almenningi.

Birgitta segir þetta vera „prinsipp“ mál. „Mér er boðið að tala á mikilvægri ráðstefnu í sumar í Bandaríkjunum um upplýsingafrelsi,“ segir þingmaðurinn og hlær við. „Þá er óþægilegt að vita ekki fyrirfram hvort þeir muni virða friðhelgi kjörinna fulltrúa. Ég hef ekki gert neitt ólöglegt, en ég veit ekki hvort það verði farið með mig í yfirheyrslu eða eitthvað slíkt.“

Tengsl Birgittu við Wikileaks eru helst þau, að hún var skráð sem meðframleiðandi myndbands sem vefurinn birti af skotárás bandarískra hermanna í Írak fyrir nokkru síðan. Myndbandið olli miklu fjaðrafoki á sínum tíma og var Birgitta talsmaður fyrir Wikileaks í tengslum við það mál.

„Þetta tengist því að [bandarísk stjórnvöld] vilja fá Julian [Assange] framseldan. Þeir eru að reyna tengja eitthvað glæpsamlegt milli aðila, býst ég við.“

Sex hundruð tölvupóstar á örfáum klukkustundum

Mál Birgittu hefur vakið mikla athygli hjá erlendum fjölmiðlum. Nú þegar hafa þó nokkrir skrifað um málið og þegar mbl.is hafði samband við Birgittu laust fyrir ellefu í morgun sagði hún að síminn hefði varla stoppað síðan hún vaknaði. Sex hundruð ólesnir tölvupóstar tengdir málinu biðu hennar í morgun, sem allir komu á örfáum klukkustundum.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert