Stofnfjáreigendum Sparisjóðs Svarfdæla var kynnt þátttaka í stofnfjáraukningu sjóðsins árið 2007 sem allt að því áhættulaus fjárfesting. Þetta segir Jóhann Ólafsson, stofnfjáreigandi í sjóðnum, í samtali við Morgunblaðið.
Eins og Morgunblaðið hefur sagt frá barst stofnfjáreigendum sparisjóðsins bréf í lok nóvember 2007 þess efnis að Saga Capital byðist til að fjármagna þátttöku stofnfjáreigenda í stofnfjáraukningu sjóðsins.
Í umfjöllun um málið í Morgunblaðinu í dag segir Jóhann, að stofnfjáreigendum hafi ekki verið heimilt að fara með lánasamningana heim til nánari skoðunar: „Í raun og veru var okkur ekki gefinn kostur á að fara með pappírana út úr Sparisjóði Svarfdæla til að lesa þá, því það þurfti að gera þetta með miklum hraði,“ bætir hann við.