Sendiherrann kallaður á fund

Birgitta Jónsdóttir þingmaður Hreyfingarinnar í mótmælum.
Birgitta Jónsdóttir þingmaður Hreyfingarinnar í mótmælum. mbl.is/Ómar

Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra segir að bandaríski sendiherrann verði kallaður á fund í ráðuneytið vegna máls Birgittu Jónsdóttur alþingismanns. Hann sagði í samtali við fréttastofu Útvarps að íslensk stjórnvöld muni verja Birgittu eins og aðra íslenska þegna.

Bandarísk stjórnvöld hafa krafist þess að örbloggsíðan Twitter afhendi öll skilaboð Birgittu og þriggja annarra, þar á meðal Julian Assange, stofnanda Wikileaks. Birgitta vann um tíma sem sjálfboðaliði með Wikileaks.

Birgitta hyggst verjast þessari kröfu og hefur í dag rætt málið við Ögmund Jónasson innanríkisráðherra og Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra.

Sérkennilegt mál

„Þetta mál virkar mjög sérkennilegt, satt að segja. Ég held að þeir sem gera þessar kröfur séu á hálum ís,“ segir Árni Þór Sigurðsson, formaður utanríkismálanefndar Alþingis en þar er Birgitta fulltrúi. Þetta segir hann í samtali við mbl.is.

Árni Þór telur ekki óeðlilegt að utanríkisráðuneytið óski eftir skýringum frá bandarískum stjórnvöldum, í gegn um sendiráðið. Mikilvægt sé að fá það fram hvað þau séu raunveruleg að fara fram á.

Samskipti við bandarískt fyrirtæki

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og fulltrúi í utanríkismálanefnd, segir að það komi sér ekki á óvart að bandarísk stjórnvöld grípi til allra mögulegra úrræða sem þau hafi til að upplýsa málið, ef þau telji að starfsemi Wikileaks jafnist á við njósnastarf. 

Spurður að því hvort íslensk stjórnvöld ættu að grípa til aðgerða vegna málsins, segist Bjarni ekki hafa heyrt frá Birgittu í fjölmiðlum eða annars staðar hvað hún fari fram á. „Mér sýnist þetta snúast um samskipti bandaríska yfirvalda við bandarískt fyrirtæki,“ segir hann.

Ekki hefur náðst í Össur Skarphéðinsson vegna þessa máls. Hann sagðist í í fréttum Útvarps ætla að bregðast hart við. Íslenskur þingmaður væri að ósekju orðinn viðfangsefni í sakamálarannsókn. Þá væri það ólíðandi að kjörinn fulltrúi þjóðar væri tekin þessum tökum.

Össur sagði að bandaríski sendiherrann yrði boðaður til fundar í ráðuneytinu vegna þessa máls.

Árni Þór Sigurðsson.
Árni Þór Sigurðsson. Ómar Óskarsson
Össur Skarphéðinsson
Össur Skarphéðinsson
Bjarni Benediktsson.
Bjarni Benediktsson. mbl.is/Ómar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka