Félagar FÍB eru bjartsýnir á að undirskriftasöfnun þeirra gegn vegtollum muni hafa tilætluð áhrif. Tæplega fjörutíu þúsund manns hafa skráð sig á listann nú þegar.
Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri félagsins, segir að undirtektirnar sem söfnunin hefur fengið, séu betri en hann hafði spáð fyrir um. Söfnunin hófst fyrir tæpri viku og lýkur á þriðjudag. „Við stefnum að því að afhenda [innanríkis]ráðherra listann strax daginn eftir,“ segir Runólfur í samtali við mbl.is.
„Það er ljóst á umræðunni, meðal annars frá þingmönnum Suðurlands, að þetta hefur haft veruleg áhrif á hið pólitíska landslag. Það hafa ýmsir þingmenn sagt að það komi ekki til greina að setja tolla á vegi út frá höfuðborgarsvæðinu. Þannig að það má segja að þetta hafi strax markað ákveðin spor,“ segir Runólfur.
„Við teljum ljóst að þegar svona stór hópur kjósenda á ekki lengri tíma lýsir yfir andstöðu við þessar hugmyndir um að ganga gegn jafnræðisreglunni og fara í alveg nýja gjaldtöku á einum landshluta, þá geta yfirvöld ekki litið framhjá því. Þannig að við hjá félaginu erum bjartsýn á að þetta muni hafa tilætluð áhrif.“