Bregðast við málflutningi Árna Þórs

Lilja Mósesdóttir og Ásmundur Einar Daðason.
Lilja Mósesdóttir og Ásmundur Einar Daðason. mbl.is/Ómar

Atli Gíslason, Ásmundur Einar Daðason og Lilja Mósesdóttir, þingmenn VG, lögðu fram á þingflokksfundi 5. janúar sl. nýja yfirlýsingu vegna greinargerðar Árna Þórs Sigurðssonar, starfandi þingflokksformanns VG. Þingmennirnir segja Árna ekki fara með rétt mál og ýmsum mikilvægum málefnalegum ágreiningi ekki svarað.

Fram kemur í tilkynningu frá þingmönnunum, að tilefni greinargerðar Árna hafi verið  yfirlýsing þremenninganna í kjölfar hjásetu þeirra við afgreiðslu fjárlaga.

„Ástæða er til að bregðast við málflutningi starfandi þingflokksformanns, þar sem ekki er farið rétt með og ýmsum mikilvægum málefnalegum ágreiningi ekki svarað.
Hjásetan skýrist af efasemdum okkar um þá efnahagsstefnu sem birtist í fjárlagafrumvarpinu og þeim viðbrögðum sem breytingartillögur okkar við fjárlagafrumvarpið fengu hjá meirihluta þingflokks VG,“ segir í tilkynningu sem Lilja Mósesdóttir hefur sent á fjölmiðla.

„Við höfðum gagnrýnt fjárlagafrumvarpið frá því maí á síðasta ári, en markmiðið með breytingartillögunum var að verja velferðarkerfið á Íslandi og sporna við kreppustefnu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Óbilgirnin í okkar garð kom á óvart m.a. í ljósi þess að tillögur annarra stjórnarliða sem fram komu milli annarrar og þriðju umræðu höfðu hlotið jákvæða afgreiðslu þingflokka stjórnarflokkanna og fjárlaganefndar.

Okkur þótti ástæða til að bregðast við upplýsingum sem fram komu við meðferð fjárlagafrumvarpsins á þingi um að hagvaxtaforsendur í áætlun AGS væru brostnar fyrir árið 2010 og 2011,“ segir einnig.

  • Samdrátturinn sé m.ö.o. mun meiri en reiknað hafi verið með og hröð hjöðnun verðbólgu við slíkar aðstæður sé vísbending um að hagkerfið stefni í hraðskreiða niðursveiflu.

  • Stuttu eftir hrun hafi sérfræðingar spáð því að tala atvinnulausra gæti nálgast 25.000. Ef fjöldi atvinnulausra (12.300 einstaklingar), brottfluttra umfram aðflutta (8.000) og minni atvinnuþátta (4.000) sé tekinn saman, þá hafi sú spá ræst.

  • Hröð lækkun stýrivaxta að undanförnu sé fyrst og fremst merki um að peningastefnunefnd telji sérstaka ástæðu til að bregðast við meiri slaka í þjóðarbúskapanum en hagspár hafi gert ráð fyrir.

„Niðurskurður ríkisútgjalda á þessu ári mun auka samdráttartilhneiginguna í hagkerfinu enn frekar sem síðan leiðir til þess að skera þarf enn meira niður á árinu 2012 en nú er gert ráð fyrir. Það er því ekki verið að treysta ríkisfjármálin á sjálfbærum grunni eins og flokksráðsfundur VG í nóvember sl. lagði áherslu á.

Í ljósi þess að fjárlögin munu auka vanda heimilanna í landinu og festa ójöfnuðinn enn frekar í sessi var okkur ómögulegt að greiða atkvæði með fjárlagafrumvarpinu,“ segir í tilkynningunni.

Yfirlýsinguna má lesa hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert