Lögmaður Assange vill ná tali af Birgittu

Birgitta Jónsdóttir.
Birgitta Jónsdóttir. mbl.is

Birgitta Jónsdóttir segist ekki hafa fengið frekari upplýsingar um mál sitt frá bandarískum yfirvöldum en hún segist vera í samskiptum við lögfræðing hjá ESS þar í landi. Lögfræðingur Julian Assange hefur óskað eftir að ná tali af Birgittu.

Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra sagðist í gær ætla að boða bandaríska sendiherrann til fundar í utanríkisráðuneytinu en eins og fram hefur komið hefur bandaríska dómsmálaráðuneytið krafið örbloggsíðuna Twitter um að fá afhent öll skilaboð Birgittu á grundvelli sakamálarannsóknar. Birgitta segist búast við að Össur muni boða sendiherrann til fundar á morgun en sjálf hugsar hún að hún verði ekki viðstödd þar sem hún er á leiðinni til Kanada að halda fyrirlestur um upplýsingafrelsi.

Birgittu hefur einnig verið boðið að halda ræðu um málfrelsi á stórri bandarískri ráðstefnu en henni finnst ólíklegt að hún geti farið. „Bandarískir lögfræðingar hafa haft samband við mig og sagt mér að það sé alls ekki öruggt fyrir mig að fara.“

Birgitta segir lögfræðing Alþingis vera með mál sitt til skoðunar. Hún segist lítið mega segja um mál sitt og hvað hún og hennar lögfræðingur í Bandaríkjunum séu að gera því svo stífar reglur séu um trúnaðarsamband lögfræðings og skjólstæðings. „Ef ég segði eitthvað, þó ekki væri nema við besta vin minn, þá er hægt að kalla hann fyrir og láta rjúfa trúnaðinn fyrir dómstólum Bandaríkjanna.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert