Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, segir að ráðuneytið muni koma ákveðnum sjónarmiðum á framfæri við bandarísku utanríkisþjónustuna mjög fljótlega. Það verði gert með milligöngu sendiherra Bandaríkjanna.
„Ég hélt fund um þetta mál í gær í ráðuneytinu með ráðuneytisstjóranum og þjóðréttarfræðingi okkar meðal annars til þess að kanna stöðu þingmannsins í þessu máli. Við ræddum auðvitað með hvaða hætti við myndum koma okkar sjónarmiðum á framfæri en ekki síður með hvaða hætti við gætum tryggt það sem ég vil kalla ferðafrelsi hennar sem fulltrúa á löggjafarsamkundunni. Hún þarf að geta ferðast áreitislaust til Bandaríkjanna sem þingmaður,“ segir Össur í samtali við mbl.is.
Össur kveðst ætla að bjóða Birgittu að eiga fund með ráðuneytisstjóra og öðrum starfsmönnum ráðuneytisins til að skýra hennar stöðu og hugsanlegar áhættur sem eru fólgnar í ferðalögum hennar. „Hún virðist gera sér grein fyrir [áhættunum] en ég vil samt að við skýrum það út fyrir henni - bara svo það sé ljóst - að þetta er nokkuð alvarlegt mál,“ segir ráðherrann.
Össur gerir ekki ráð fyrir því að hann muni eiga fund með sendiherra Bandaríkjanna sjálfur. Líklegast komi það í hlut ráðuneytisstjóra. Tímasetning fundarins hefur ekki verið ákveðin enn, en Össur reiknar með því að hann verði mjög fljótlega.