Einn þeirra erlendu aðgerðasinna, sem komu hingað til lands sumarið 2005 til að mótmæla byggingu Kárahnjúkavirkjunar, var í raun breskur lögreglumaður í dulargervi. Að sögn blaðsins Guardian var lögreglumaðurinn í 7 ár í gervi mótmælenda en er nú talinn hafa gengið til liðs við þá í raun og veru.
Guardian segir, að maðurinn, sem nefndi sig Mark Stone en heitir í raun Mark Kennedy, birst í röðum aðgerðasinna árið 2003. Hann hafi síðan tekið virkan þátt í starfi þeirra á Bretlandseyjum en jafnframt veitt lögreglunni nákvæmar upplýsingar. Þannig hafi Kennedy tekið þátt í flestum umfangsmestu mótmælaaðgerðum á Bretlandseyjum og jafnvel aðstoðað við að skipuleggja sumar þeirra. Þá hafi hann ferðast til 22 landa, með því að nota falsað vegabréf, og tekið þátt í mótmælaaðgerðum, þar á meðal til Íslands.
Að sögn blaðsins tók Kennedy
þátt í mótmælum gegn G8 fundinum í Skotlandi árið 2005 og í kjölfarið
fór hann til Íslands til að taka þátt í mótmælum Saving Iceland gegn
Kárahnjúkastíflunni og Alcoa.
Fram kemur
að Kennedy búi nú utan Bretlands en ýmislegt bendi til þess að hann
sjái eftir gerðum sínum. Þannig segist hann, í tölvupóstsendingum til
aðgerðasinna og lögmanna þeirra, vilja aðstoða þá í málaferlum sem nú
standa yfir.