Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra hefur ekki í hyggju að setja reglur sem hindra uppbyggingu læknisþjónustu hér á landi fyrir erlenda sjúklinga. Þó sé mikilvægt að halda starfseminni sér, þannig að hún verði ekki til að skemma fyrir heilbrigðisþjónustu sem ríkið veitir Íslendingum.
Nokkur fyrirtæki hafa hug á því að sækja sjúklinga til útlanda til læknisþjónustu hér. Tvö einkasjúkrahús eru í undirbúningi, tannígræðslustofa verður opnuð á næstu dögum og fyrirtæki er að athuga möguleika á að flytja inn sjúklinga fyrir íslenskar læknastofur og læknamiðstöðvar. Kemur þetta til viðbótar starfsemi á vegum Landspítalans og einstakra læknastofa.
Einkasjúkrahúsin hafa lengi verið í umræðunni en málefni þeirra hafa ekki komið inn á borð heilbrigðisnefndar Alþingis, að sögn Þuríðar Backman, formanns nefndarinnar.