Tekur aftur við Orkustöðinni

Orkustöð Orkuveitu Húsavíkur.
Orkustöð Orkuveitu Húsavíkur.

Guðrún Erla Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Orkuveitu Húsavíkur, segir að samningurinn sem OH gerði við Global Geothermal Limited feli í sér viðgerð og endurbætur á orkustöð fyrirtækisins sem framleiðir rafmagn með svokallaðri Kalinatækni. Global Geothermal Limited leysi til sín stöðina og skili henni aftur þegar sýnt hafi verið fram á rekstrarhæfni hennar.

Orkustöðin á Húsavík var sú fyrsta í heiminum til að framleiða rafmagn úr jarðvarma með svokallaðri Kalinatækni, sem breska fyrirtækið Global Geothermal hefur einkaleyfi fyrir. Þrálátar bilanir hafa gert rekstur Orkustöðvarinnar erfiðan frá því að stöðin var tekin í notkun árið 2000. Ástralska fyrirtækið Wasabi Energy á meirihluta í Global Geothermal.

Engin orkuframleiðsla hefur verið í stöðinni frá því bilun varð í janúar 2008. Guðrún Erla segir að Global Geothermal sé kappsmál að raforkuframleiðsla hefjist að nýju í Orkustöðinni og hafi því falið dótturfyrirtæki sínu, Recurrent Engineering, að yfirfara vélbúnað stöðvarinnar, sinna viðgerðum og koma Orkustöðinni í fulla vinnslu á ný. Hún segir að það sé ekki gott fyrir ímynd Global Geothermal að þessi stöð skuli ekki vera að framleiða rafmagn.

Guðrún Erla segir að Global Geothermal mun yfirtaka stöðina meðan viðgerð fer fram og muni viðgerðarkostnaður verða greiddur af Global Geothermal. OH muni síðan leysa stöðina til sín aftur þegar sýnt hafi verið fram á rekstrarhæfni hennar.

Guðrún Erla segir ekki tímabært að svarað því hvað ráðast þurfi í mikla fjárfestingu til að koma stöðinni í gang að nýju. Hún segist reikna með að stöðin hefji rafmagnsframleiðslu að nýju eftir u.þ.b. eitt ár.

Guðrúin Erla segir að samningurinn við Global Geothermal feli ekki í sér neitt framsal á auðlindum og ekki sé verið að selja Orkuveitu Húsavíkur. Þegar Orkuveita taki við rekstrinum á ný verði fyrirtækið komið með tekjuaflandi einingu sem styrki reksturinn.

Með Kalínatækni er raforka framleidd með varma frá lághitasvæði. Með henni framleiðir Orkustöðin rafmagn úr vatni sem er 121°C, áður en vatnið er nýtt fyrir hitaveitu bæjarins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert