Traustsyfirlýsing frá AGS

Árni Páll Árnason, efnahags- og viðskiptaráðherra.
Árni Páll Árnason, efnahags- og viðskiptaráðherra. Eggert Jóhannesson

Árni Páll Árnason, efnahags- og viðskiptaráðherra, segir að samþykki fjórðu endurskoðunar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sé traustyfirlýsing af þeirra hálfu.

„Þeir taka sérstaklega til þess hversu vel hefur gengið með frágang fjárlaga fyrir þetta ár. Þeir tala líka um þann árangur sem hefur náðst í endurskipulagningu skulda fyrirtækja og heimila, sem búið er að leggja grunn að. Þær ákvarðanir sem hafa verið teknar á síðustu mánuðum hafa verið mjög hjálplegar í því efni,“ segir Árni Páll.

„Við fáum aðgang að enn frekari fjármögnun sem verður okkur aðgengileg í framhaldinu. Nú erum við komin með fullan aðgang að allri fjármögnun frá Norðurlöndunum og okkur stendur hún til boða út þetta ár. Það sem opnaðist með þessari ákvörðun núna var viðbót frá AGS.“

Árni segir nú skipta miklu máli að halda dampi. Héðan í frá fái Ísland endurskoðun á áætluninni með reglulegu millibili það sem eftir er.

Árni Páll segir mörg verkefni á næstu mánuðum skipti máli hvað framhaldið varðar. Endurskoðun á áætluninni um afnám gjaldeyrishafta sé ofarlega á baugi í þeim efnum. „Afnám haftanna mun taka einhvern tíma en endurskoðuð áætlun á að liggja fyrir fyrir mars,“ segir ráðherrann.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert