Engin niðurstaða fékkst í helstu ágreiningsmál á löngum þingflokksfundi Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, sem stóð samtals í um sjö og hálfa klukkustund í gær og lauk fundinum ekki fyrr en um hálftíuleytið.
Samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins fór mestur hluti fundarins í umræður um stefnu VG í Evrópusambandsmálum, en einnig var stefna flokksins í sjávarútvegsmálum rædd, og varð niðurstaðan sú að fresta frekari umræðum í þingflokknum fram í næstu viku.
Í umfjöllun um mál Vinstri grænna í Morgunblaðinu í dag kemur fram, að þingmenn sem rætt var við í gærkvöldi sögðu að umræðum um stefnuna í Evrópusambandsmálum væri hvergi nærri lokið. Nú tæki við fundaherferð VG um land allt og í kjölfar hennar ættu mál að hafa skýrst.