Greiða atkvæði um verkfall

Starfsmenn í loðnubræðslum á Austurlandi og Vestmannaeyjum halda fund í kvöld þar sem lögð verður fram tillaga um boðun verkfalls. Hugsanlegt er að Samtök atvinnulífsins kæri verkfallsboðunina til félagsdóms.

Sverrir Mar Albertsson, formaður Afls á Austurlandi, segir að það sé kominn tími til að auka þrýsting á vinnuveitendur fyrst viðræður hafi ekki skilað árangri. Afl er með fund í kvöld með bræðslumönnum á Austurlandi og Eyjum og Drífandi verður síðan með fund á morgun með sínum félagsmönnum. Sverrir vildi ekki tjá sig um hvenær gert væri ráð fyrir að verkfallið hæfist, en tillaga um það lægi fyrir.

Samtök atvinnulífsins hafa hótað að leita til félagsdóms ef verkalýðsfélögin Afl á Austurlandi og Drífandi í Vestmannaeyjum láta greiða atkvæði um verkfall í loðnubræðslum. SA hefur neitað að ræða við félögin um gerð nýs samnings þar sem bræðslusamningurinn sé sérkjarasamningur.

Afl og Drífandi vísuðu kjaradeilu þeirra um bræðslusamninginn til ríkissáttasemjara fyrir jól, en nokkrir fundir voru haldnir í deilunni í nóvember og desember án þess að þeir leiddu til niðurstöðu.

Bræðslusamningurinn er sérkjarasamningur sem byggir á aðalkjarasamningi og afstaða SA er að ekki eigi að ganga frá sérkjarasamningum fyrr en aðalkjarasamningur milli SA og Starfsgreinasambandsins liggur fyrir. Afl og Drifandi vilja hins vegar klára bræðslusamninginn sem fyrst og ætla að láta fara fram atkvæðagreiðslu um boðun verkfalls til að knýja SA að samningaborðinu. SA hefur hins vegar hótað að kæra slíka atkvæðagreiðslu til félagsdóms.

Afl og Drífandi hafa falið samninganefnd Starfsgreinasambandsins að fara með samningsumboð í kjaraviðræðum sem nú standa yfir. Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins hefur sá möguleiki verið ræddur að Afl og Drífandi dragi samningsumboðið til baka. Verði það gert er talið að félögin standi betur að vígi í hugsanlegu dómsmáli um lögmæti verkfallsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert