Ísland hefur náð töluverðum árangri

Höfuðstöðvar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í Washington.
Höfuðstöðvar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í Washington.

Murilo Portugal, framkvæmdastjóri hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, segir að aðgerðir íslenskra stjórnvalda í efnahagsmálum hafi borið árangur. Hann fagnar nýjum fjárlögum og segir nýlegt Icesave-samkomulag kærkomið.

Þetta kemur fram á vef Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í tilkynningu um fjórðu endurskoðun efnahagsáætlunar Íslands og sjóðsins, sem staðfest var í gærkvöldi. 

„Ísland hefur náð töluverðum árangri í sínu aðlögunarferli. Árangursrík aðlögun í ríkisfjármálum, skilvirk notkun gjaldeyrishafta og endurskipulagning fjármálageirans hafa hjálpað við batann. Vænta má hagvaxtar á árinu 2011 á sama tíma og verðbólgan heldur áfram að lækka. Mögulegar hættur fyrir batann eru seinkun á fjárfestingu, utanaðkomandi áföll eða seinkun á endurreisn trausts fjármálakerfis,“ er haft eftir Portugal.

Hann segir nýlegar aðgerðir sem miða að skuldaaðlögun heimila vera kærkomnar og þurfi að fá tíma. Hann segir einnig að aðgerðir í þágu skuldugra fyrirtækja séu til þess fallnar að blása lífi í fjárfestingar og laga til á efnahagsreikningum. Portugal segir einnig að samþykkt nýrra fjárlaga skipti miklu máli.

Mestu skipti þó áframhaldandi uppbygging gjaldeyrisforða með auknum fjárfestingum á erlendri mynt.

„Styrking fjármálageirans er fremst í forgangsröðinni, hann hefur tekið framförum,“ segir Portugal. Hann minnist einnig á Icesave: „Nýlegt samkomulag milli íslenskra, breskra og hollenskra samningamanna varðandi Icesave-skuldirnar eru kærkomnar og hröð afgreiðsla þess máls myndi marka tímamót í sókn Íslands á alþjóðamarkaði á nýjan leik.“

Vefur Alþjóðagjaldeyrissjóðsins

Murilo Portugal
Murilo Portugal IMF
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert