Umboðsmaður barna sendi dagskrárstjóra Stöðvar tvö bréf fyrir tæpum tveimur mánuðum, þar sem óskað er eftir fundi til að ræða ábendingar sem embættinu hafa borist vegna þátta Audda og Sveppa á Stöð tvö.
Í samtali við mbl.is sagði Margrét María Sigurðardóttir, umboðsmaður barna, að enn hefðu engin svör borist við bréfinu.
Í bréfinu segir að umboðsmanni barna hafi borist fjölmargar ábendingar vegna Audda og Sveppa, þar sem bent hafi verið á atriði þar sem þeir eru taldi hafa farið langt út fyrir mörk siðferðis. Einnig hafi verið bent á vanvirðandi og hættulega hegðun þeirra, sem börn api eftir með alvarlegum afleiðingum fyrir þau sjálf og önnur börn.
„Ég hef engar formlegar heimildir til að aðhafast neitt, við erum einfaldlega að vekja athygli á þeim athugasemdum sem okkur berast," segir Margrét María. „Þetta er langt ferli, ábendingarnar hafa verið að berast til okkar yfir langt tímabil."
Hún segist margoft hafa haft samband við dagskrárstjóra Stöðvar tvö vegna þessa. „Það var afar vel tekið í það og mér var sagt að þessu yrði komið á framfæri. Þetta er síður en svo eina barnaefnið sem gerðar eru athugasemdir við."
Í bréfinu er vísað í útvarpslög, þar sem segir að sjónvarpsstöðvum sé óheimilt að senda út dagskrárefni, þar á meðal auglýsingar, sem gæti haft alvarleg skaðvænleg áhrif á líkamlegan, andlegan eða siðferðilegan þroska barna. Er verið að halda því fram að umrætt sjónvarpsefni hafi slík áhrif?
„Ég er enginn dómari í því, við erum að brýna fyrir fjölmiðlum ábyrgð þeirra. Maður er oft að biðja fólk um að taka sig á. Þetta er svoleiðis mál."
Að sögn Pálma Guðmundssonar, dagskrárstjóra Stöðvar tvö, mun fundurinn fara fram eftir helgina.