Íslandshreyfingin hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem mótmælt er harðlega að Landsvirkjun hafi fengið rannsóknarleyfi í Gjástykki. Skorar stjórnin á Landsvirkjun að nota ekki leyfi Orkustofnunar og vísar til þess, að fyrir liggur að friða þetta svæði að aflokinni vandaðri umfjöllun.
„Stjórn Íslandshreyfingarinnar mótmælir harðlega áformum um að fara með bora og stórvirk tæki inn í Gjástykki og eyða mörg hundruðum milljóna króna í tilraunaboranir þar með tilheyrandi óafturkræfum umhverfisspjöllum," segir í yfirlýsingunni.
Skorað er á stjórnvöld að standa við loforð, sem gefin voru vorið 2007 af þáverandi iðnaðarráðherra og umhverfisráðherra að ekki yrði hróflað við Leirhnjúk og Gjástykki nema að undangenginni sérstaklega yfirgripsmiklilli og vandaðri umfjöllun og að endanleg ákvörðun yrði einungis tekin með beinu samþykki Alþingis.