Erla Margrét Gunnarsdóttir, námsmaður í Brisbane í Ástralíu, segist reikna með að fyrsta hæðin á húsi sem hún býr í fari á kaf þegar flóðið nær hámarki á morgun eða fimmtudag. Erla býr sjálf á þriðju hæð hússins.
Íbúar Brisbane undirbúa sig nú undir að flóð fari yfir stóran hluta borgarinnar, en yfirvöld segja að það verði stærra en flóð sem kom í Brisbane-ánna árið 1974, en þá fór hluti borgarinnar á kaf. Stjórnvöld segja að flóðið geti orðið svipað og risaflóðið árið 1883.
„Við búum ekki langt frá ánni og vatnið í henni hefur verið að aukast hægt og bítandi í dag. Það vantar enn um 1,5 metra upp að okkar húsi, en það er farið að flæða inn í hús sumstaðar í borginni. Við búum á þriðju hæð, en fólkið sem býr á fyrstu hæð er flutt út og er búið að flytja allt innbúið upp á aðra hæðina.“
Erla sagði að í flóðinu 1974 hefði vatnshæðin farið það hátt að um tveggja metra djúpt vatn hefði mælst á fyrstu hæð hússins. Það væri því ástæða fyrir fólk að óttast flóðið.
Erla sagði yfirvöld væru búin að biðja fólk á mestu flóðasvæðunum að yfirgefa heimili sín. Brisbane er í hæðóttu landslagi og því eru húsin í mismikilli hættu.
Erla sagðist reikna með að rafmagn yrði tekið af borginni í fyrramálið. Hún sagði að hún myndi meta stöðuna í fyrramálið og taka þá ákvörðun um hvort hún myndi flytja sig til vinafólks sem býr í húsi á hæð í borginni. Hún sagði að flest fyrirtæki í miðborginni hefðu lokað og sent starfsfólk heim á hádegi í dag. Hún sagði að það væri byrjað að flæða yfir vegi og göngustíga.
Erla sagði að ástæðan fyrir flóðunum væru miklar rigningar, en rignt hefur í Brisbane í heila viku. Einnig væri vatn að koma frá öðrum flóðasvæðum og svo til viðbótar væri stífla, sem ætlað er að halda aftur af flóðum, full og gæti ekki tekið við meira vatni.