Þingið endurnýi umboð til ESB-umsóknar

Björn Valur Gíslason
Björn Valur Gíslason mbl.is

Björn Valur Gíslason, alþingismaður VG, segist vera að komast á þá skoðun að Alþingi eigi að endurnýja umboð sitt til umsóknar um aðild Íslands að ESB og kanna hver vilji þingsins er og í hvaða farveg best er að setja málið.

Björn Valur skrifaði grein um þetta á heimasíðu sína. Greinin birtist áður en þingflokkur VG kom saman í gær þar sem m.a. fór fram ítarleg umræða um aðildarumsókn að ESB. Greinin heitir „Leiðinleg umræða sem þarf að ljúka.“ Þar segir þingmaðurinn: „Ein leiðinlegasta og tilgangslausasta umræða dagsins er hver staðan er á samningaviðræðunum á milli Íslands og ESB. Sjálfur batt ég vonir við að með þeirri ákvörðun Alþingis að sækja um aðild myndi þeirri umræðu ljúka sem uppi hafði verið um hvort við ættum að sækja um eða ekki. Ég hélt í einfeldni minni að eftir að umsóknaraðild var samþykkt myndu stjórnmálamenn einbeita sér að samningagerðinni sjálfir, reyna að ná sem besta mögulega samningi og leggja hann síðan fyrir þjóðina sem tæki sjálf ákvörðun um framtíð sína hvað þetta varðar. Mér varð ekki að þeirri ósk minni frekar en mörgum öðrum.“


Fram kemur í grein Björns Vals að Lilja Mósesdóttir hafi í upphafi verið fylgjandi aðildarumsókn en hafi nú skipt um skoðun.

Björn Valur segir að þingmaður Sjálfstæðisflokksins hafi boðað þingmál strax þegar þing kemur saman um að umsóknin verði dregin til baka. Hann sagðist þó hafa efasemdir um að flokkurinn standi við það að leggja slíka tillögu fram, nú frekar en áður.

„Ég er hinsvegar að komast á þá skoðun að Alþingi verði að ræða þetta mál og endurnýja umboð sitt til umsóknarinnar og kanna hver vilji þingsins er og í hvaða farveg best er að setja málið. Því velti ég fyrir mér hvort ekki sé rétt að gefa Sjálfstæðisflokknum smá aðlögunartími til að leggja umrætt mál fyrir þingið, eina til tvær vikur eða svo og ef það kemur ekki fram, þá verði það lagt fram af stjórnarliðum sjálfum. Það yrði auðvitað dálítið sérstakt ef slíkt yrði gert en ef stjórnarandstaðan hefur sig ekki til þess og vill þess í stað vera uppi með stöðugar hótanir um mál af þessu tagi, verður einhver að taka af skarið og koma málinu í hendur þingsins. Þá fæst væntanlega úr því skorið hver vilji Alþingis í þessu máli og hægt að halda áfram frá þeim stað.
Er það ekki það sem þarf ef vafi leikur á vilja þingsins?“ spyr Björn Valur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka