Veðurstofa Íslands hefur beint þeim tilmælum til skíðamanna, vélsleðafólks og annarra að vera ekki á ferð á snjóflóðastöðum á Norðurlandi, halda sig frá snjóflóðabrekkum og vera ekki á ferð þar sem snjóflóð geta fallið.
Fram kemur í tilkynningu frá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, að viðvörunin sé send út vegna mikillar snjósöfnunar í allhvassri norðaustan átt síðustu daga, ótryggra snjóalaga og nokkurra snjóflóða sem fallið hafa á Norðurlandi.
Einnig er vegfarendum bent á að stöðva ekki farartæki sín á vegarköflum þar sem hætta getur verið á ofanflóðum. Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra hvetur alla til þess að virða þessi tilmæli og fylgjast með fréttum af veðri og færð.