Samninganefndir Samtaka atvinnulífsins og Alþýðusambands Íslands funda í dag með Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra og Steingrími J. Sigfússyni fjármálaráðherra í Stjórnarráðinu um stöðuna í kjaramálum.
Samninganefnd SA mætti á fund ráðherranna kl. 12:30 og er samninganefnd ASÍ væntanleg kl. 13:15.
Fram kemur í Morgunblaðinu í dag að lítið hafi þokast í viðræðum SA og ASÍ um kjarasamninga, en samninganefndirnar fóru yfir sameiginleg mál aðildarfélaga ASÍ á fundi hjá Ríkissáttasemjara í gær.
Samtök atvinnulífsins hafa lagt áherslu á að gerður verði samningur til þriggja ára, til þess að skapa stöðugleika í samfélaginu. Vilmundur Jósefsson, formaður SA, segir enn að því stefnt en tíminn verði að leiða í ljós hvernig mál þróist. Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, segir að sama meginviðhorf hafi verið uppi hjá ASÍ en óvissa í stjórnmálum og efnahagsmálum hafi fælt marga frá því. Flest landssambönd og aðildarfélög ASÍ vilji nú samning til skemmri tíma.
ASÍ vill að tiltekin mál sem snúa að ríkisvaldinu komist á hreint, til að samningar geti náðst. Gylfi nefnir jöfnun lífeyrisréttinda og atvinnumál. Einnig þurfi að fara yfir form samskiptanna.
Vilmundur
segir að forystumenn Samtaka atvinnulífsins muni gera formönnum
ríkisstjórnarflokkanna grein fyrir sýn sinni á stöðu mála og útskýra
ýmis mál sem þeir telja að koma þurfi fram, til þess að hægt verði að
ná samningum á eðlilegum nótum. Hann vill ekki greina frá einstökum
atriðum á þessari stundu.