IFS-greining segir að í nýju Icesave-samningunum sé að finna skilyrði sem gæti veitt Tryggingasjóði innistæðueigenda og fjárfesta aukinn forgang umfram aðra kröfuhafa. Gangi það eftir gæti niðurstaðan orðið sú að sjóðurinn fengi meira greitt úr þrotabúinu en hann þarfa að greiða Bretum og Hollendingum.
Fjárlaganefnd tók í dag til umræðu fyrstu umsagnir sem borist hafa um Icesave-samningana. Nefndin fundar aftur á morgun.
Í umsögn IFS-greiningar segir að nýju samningarnir séu á margan hátt hagstæðari en eldri samningar. Þar skipti mestu máli lægri vaxtaprósenta sem lækkaði úr 5,5 í 3,2% að meðaltali.
Í umsögninni segir að áhættan í samningunum snúi að mestu leyti að veikingu á gengi krónunnar og lægra endurheimtuhlutfalli. Einnig hefði það neikvæð áhrif ef afgangur á vöru- og þjónustujöfnuði lækkaði mikið því þá þyrfti að fjármagna stærri hluta kostnaðar af samningnum með lántökum. Í nýju samningunum sé efnahagslegir fyrirvarar sem verji ríkissjóð gagnvart þungum greiðslum og veiti því visst skjól gagnvart neikvæðri þróun í uppgjöri samnings. Slíkt skjól geti verið afar þýðingarmikið taki það lengri tíma en vonir standa til að komast aftur upp úr efnahagslægðinni.
„Í nýja samkomulaginu er að finna skilyrði sem gæti veitt TIF aukinn forgang umfram aðra kröfuhafa. Líklegt er að TIF muni sækjast eftir þessum aukna forgangi. Ef það gengi eftir þá fengi TIF greitt út úr þrotabúinu á undan öðrum. Það gæti jafnvel leitt til þess að endanleg niðurstaða yrði sú að TIF fengi meira greitt úr þrotabúinu en hann þyrfti að greiða Bretum og Hollendingum miðað við núverandi gengi krónunnar,“ segir í umsögn IFS-greiningar.
Fjármálafyrirtækið Gamma hefur einnig sent frá sér umsögn um Icesave-samninginn. Þar kemur fram, að miðað við greiningu á mismunandi sviðsmyndum megi meta heildarkostnaður ríkissjóðs á bilinu 26-233 milljarða króna að nafnvirði.