Stjórn Neytendasamtakanna (NS) leggst harðlega gegn því að lagðir verði vegatollar til og frá höfuðborgarsvæðinu. Með slíkri skattlagningu sé verið að rjúfa ríkjandi þjóðarsátt og mismuna almenningi.
Stjórn samtakanna fjallaði um málið á fundi sínum í fyrradag. NS benda á að skattlagning sé nú þegar mjög mikil á kaupum og við rekstur bifreiða. Þetta kemur fram á vef samtakanna.
„Það er skoðun
samtakanna að með vegatollum á ákveðnu svæði á landinu sé verið að rjúfa
þá þjóðarsátt sem hefur verið varðandi vegagerð í landinu. Á sama tíma
og lagt er í dýrar vegaframkvæmdir á landsbyggðinni, sem eru án
gjaldtöku, stendur til að skattleggja íbúa á suð-vesturhorni landsins
sérstaklega. Minnt er á að suð-vesturhornið er nú eitt atvinnusvæði. Með
töku vegatolla væri því verið að mismuna almenningi herfilega,“ segir á vef samtakanna.
„Neytendasamtökin leggja áherslu á að ekki er
sanngjarnt að leggja á vegatolla nema því aðeins að almenningur hafi
valkost um að aka aðra leið til að komast hjá þeim. Hvalfjarðargöngin
eru skýrt dæmi um slíkt enda geta þeir sem ekki vilja greiða vegna
aksturs í gegnum göngin keyrt á veginum sem liggur um Hvalfjörð. Það er
jafnframt ljóst að stór hluti landsmanna er á móti slíkri skattlagningu,
það sýnir mikil þátttaka í undirskriftasöfnun á vegum Félags íslenskra
bifreiðaeigenda gegn þessum vegatollum ljóslega,“ segja samtökin ennfremur.