Óvissu- og áhættuþættir enn til staðar

Indenence-hópurinn mótmælir Icesave-samningunum við Bessastaði.
Indenence-hópurinn mótmælir Icesave-samningunum við Bessastaði. Kristinn Ingvarsson

Helstu áhættu- og óvissuþætt­ir eru enn til staðar í nýj­um Ices­a­ve-samn­ing­um að mati InD­efence hóps­ins. Hóp­ur­inn tel­ur að samn­ing­arn­ir þurfi að end­ur­spegla þrjú grund­vall­ar­atriði, m.a. um skipt­ingu ábyrgðar og áhættu milli samn­ingsaðila. Nýir samn­ing­ar end­ur­spegli þetta ekki með full­nægj­andi hætti. 

Þetta kem­ur fram í um­sögn InD­en­fence-hóps­ins til fjár­laga­nefnd­ar, en nefnd­in sit­ur nú á fundi þar sem farið er yfir um­sagn­ir sem henni hafa borist.

„Allt frá því að þjóðin hafnaði með af­drátt­ar­laus­um hætti fyrri Ices­a­ve samn­ing­un­um þann 6. mars 2010 hef­ur mál­flutn­ing­ur InD­efence hóps­ins verið óbreytt­ur. Hags­mun­ir allra samn­ingsaðila í Ices­a­ve deil­unni kunna að fela það í sér að samn­ing­ur um lausn máls­ins sé eðli­legri niðurstaða en að hafa um­rædda milli­ríkja­deilu óleysta. Grund­vall­ar­atriði sé hins veg­ar að slík­ur samn­ing­ur end­ur­spegli þá þrjú meg­in­at­riði:


1. Að ekki sé lög­bund­in greiðslu­skylda að baki kröf­um Breta og Hol­lend­inga.
2. Að samn­ing­ar feli í sér skipta ábyrgð allra samn­ingsaðila.
3. Að samn­ing­ar feli í sér skipta áhættu allra samn­ingsaðila.


Að mati InD­efence hóps­ins end­ur­spegla nú­ver­andi samn­ing­ar ekki þessa þætti með full­nægj­andi hætti. Hins veg­ar tel­ur InD­efence hóp­ur­inn að nú­ver­andi samn­ing­ar feli í sér ýms­ar úr­bæt­ur frá fyrri samn­ingi. Helstu áhættu- og óvissuþætt­ir eru enn til staðar frá fyrri samn­ing­um að mati InD­efence hóps­ins. Einnig verður að hafa í huga að lög­mæt greiðslu­skylda að baki kröf­un­um er ekki til staðar,“ seg­ir í um­sögn­inni sem tel­ur ein­ar 53 blaðsíður.

Hóp­ur­inn seg­ir að helstu áhættuþætt­irn­ir lúti að geng­isáhættu og áhættu á matsverði eigna þrota­bús Lands­banka Íslands, þótt óvissa um virði eigna LÍ sé minni en áður. „Auk þeirr­ar áhættu veit eng­inn raun­veru­lega á þessu stigi hve langt er í að greiðslur inn á höfuðstól skuld­ar­inn­ar hefj­ist. Hve langt verður tíma­bilið sem vext­ir safn­ast á Ices­a­ve skuld­bind­ingu þjóðar­inn­ar án þess að nokkuð greiðist á höfuðstól láns­ins? For­send­ur samn­inga­nefnd­ar­inn­ar um að greiðslur inn á höfuðstól úr þrota­búi LÍ geti haf­ist inn­an skamms tíma verða að telj­ast í bjart­sýnni lagi.“


InD­efence hóp­ur­inn hvet­ur stjórn­völd til þess að birta op­in­ber­lega allt mat sem gert var á laga­legri stöðu Íslands á meðan á samn­ingaviðræðunum stóð. Ein­ung­is þannig geta ís­lensk stjórn­völd sýnt þegn­um sín­um að þau hafi samið þannig að niðurstaðan sé betri en út­kom­an úr hugs­an­leg­um mála­ferl­um. Ekk­ert slíkt mat hef­ur enn verið birt og því er enn ekki hægt að taka af­stöðu til mik­il­vægra þátta máls­ins.

Hóp­ur­inn gagn­rýn­ir vinnu­brögð stjórn­valda í mál­inu og seg­ir að þau séu stór­lega ámæl­is­verð. Vinnu­brögð Seðlabanka eru gagn­rýndi. „Grein­ing­ar­vinnu Seðlabank­ans varðandi greiðslu­getu Íslands hef­ur verið mjög ábóta­vant. M.a. lá eng­in greiðslu­áætlun til 15 ára fyr­ir þegar samn­inga­nefnd Íslands og fjár­málaráðherra und­ir­rituðu Ices­a­ve 1 í júní 2009. InD­efence hóp­ur­inn kallaði eft­ir slíkri greiðslu­áætlun 10 dög­um eft­ir að samn­ing­ur­inn var gerður, en hún hef­ur aldrei verið birt. Grein­ing­ar Seðlabank­ans sem birt­ar hafa verið í þessu sam­hengi hafa að því er virðist mun frem­ur tekið mið af og verið látn­ar falla að samn­ing­um um Ices­a­ve eft­ir á frek­ar en á hinn veg­inn.“

Um­sögn InD­efence

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert