Helstu áhættu- og óvissuþættir eru enn til staðar í nýjum Icesave-samningum að mati InDefence hópsins. Hópurinn telur að samningarnir þurfi að endurspegla þrjú grundvallaratriði, m.a. um skiptingu ábyrgðar og áhættu milli samningsaðila. Nýir samningar endurspegli þetta ekki með fullnægjandi hætti.
Þetta kemur fram í umsögn InDenfence-hópsins til fjárlaganefndar, en nefndin situr nú á fundi þar sem farið er yfir umsagnir sem henni hafa borist.
„Allt frá því að þjóðin hafnaði með afdráttarlausum hætti fyrri Icesave samningunum þann 6. mars 2010 hefur málflutningur InDefence hópsins verið óbreyttur. Hagsmunir allra samningsaðila í Icesave deilunni kunna að fela það í sér að samningur um lausn málsins sé eðlilegri niðurstaða en að hafa umrædda milliríkjadeilu óleysta. Grundvallaratriði sé hins vegar að slíkur samningur endurspegli þá þrjú meginatriði:
1. Að ekki sé lögbundin greiðsluskylda að baki kröfum Breta og Hollendinga.
2. Að samningar feli í sér skipta ábyrgð allra samningsaðila.
3. Að samningar feli í sér skipta áhættu allra samningsaðila.
Að mati InDefence hópsins endurspegla núverandi samningar ekki þessa þætti með fullnægjandi hætti. Hins vegar telur InDefence hópurinn að núverandi samningar feli í sér ýmsar úrbætur frá fyrri samningi. Helstu áhættu- og óvissuþættir eru enn til staðar frá fyrri samningum að mati InDefence hópsins. Einnig verður að hafa í huga að lögmæt greiðsluskylda að baki kröfunum er ekki til staðar,“ segir í umsögninni sem telur einar 53 blaðsíður.
Hópurinn segir að helstu áhættuþættirnir lúti að gengisáhættu og áhættu á matsverði eigna þrotabús Landsbanka Íslands, þótt óvissa um virði eigna LÍ sé minni en áður. „Auk þeirrar áhættu veit enginn raunverulega á þessu stigi hve langt er í að greiðslur inn á höfuðstól skuldarinnar hefjist. Hve langt verður tímabilið sem vextir safnast á Icesave skuldbindingu þjóðarinnar án þess að nokkuð greiðist á höfuðstól lánsins? Forsendur samninganefndarinnar um að greiðslur inn á höfuðstól úr þrotabúi LÍ geti hafist innan skamms tíma verða að teljast í bjartsýnni lagi.“
InDefence hópurinn hvetur stjórnvöld til þess að birta opinberlega allt mat sem gert var á lagalegri stöðu Íslands á meðan á samningaviðræðunum stóð. Einungis þannig geta íslensk stjórnvöld sýnt þegnum sínum að þau hafi samið þannig að niðurstaðan sé betri en útkoman úr hugsanlegum málaferlum. Ekkert slíkt mat hefur enn verið birt og því er enn ekki hægt að taka afstöðu til mikilvægra þátta málsins.
Hópurinn gagnrýnir vinnubrögð stjórnvalda í málinu og segir að þau séu stórlega ámælisverð. Vinnubrögð Seðlabanka eru gagnrýndi. „Greiningarvinnu Seðlabankans varðandi greiðslugetu Íslands hefur verið mjög ábótavant. M.a. lá engin greiðsluáætlun til 15 ára fyrir þegar samninganefnd Íslands og fjármálaráðherra undirrituðu Icesave 1 í júní 2009. InDefence hópurinn kallaði eftir slíkri greiðsluáætlun 10 dögum eftir að samningurinn var gerður, en hún hefur aldrei verið birt. Greiningar Seðlabankans sem birtar hafa verið í þessu samhengi hafa að því er virðist mun fremur tekið mið af og verið látnar falla að samningum um Icesave eftir á frekar en á hinn veginn.“