Fullyrt er á vef Viðskiptablaðsins, að Hið íslenska reðursafn á Húsavík hafi fengið afhentan lim Páls Arasonar. Páll lést 5. janúar, 95 ára að aldri, en hann hafði fyrir löngu ánafnað safninu þennan líkamspart.
Fram kemur að Sigurður Hjartarson, safnstjóri Hins íslenska reðursafns, hafi í samtali við Viðskiptablaðið hvorki viljað staðfesta né neita því að limurinn væri kominn til safnsins.
Aðspurður hvort hann telji að slíkur safngripur myndi auka viðskipti safnsins sagðist Sigurður vona það. Þetta sé það eina sem ekki hafi verið til sýnis þar.