Seðlabanki metur Icesave-kostnað

mbl.is/Ernir

Seðlabanki Íslands hefur lagt mat á fjárhagslega þætti Icesave samningsins, samkvæmt beiðni fjárlaganefndar Alþingis.

Matið er byggt á yfirliti slitastjórnar Landsbankans um  heimtur eigna í þrotabú bankans og sé mið tekið af vaxtaforsendum telur Seðlabankinn að endurheimtur úr þrotabúi Landsbankans ættu að nægja til að greiða meira en allan höfuðstól lánanna í erlendri mynt.

Gert er ráð fyrir að gengi krónunnar hækki og verði nokkru hærra en það var 22. apríl 2009, sem kröfur í erlendri mynt miðast við. 

Í útreikningunum er gert ráð fyrir að innbyrðis gengi erlendu gjaldmiðlanna haldist óbreytt frá því sem það var á fjórða ársfjórðungi ársins 2010, en mikil óvissa er þó um þessa forsendu.

Í matinu segir að nýi Icesave-samningurinn sé mun hagstæðari en fyrri samningur. Þar munar mestu um að vextir samningsins eru töluvert lægri fram til ársins 2016. Einnig skiptir miklu máli að samkvæmt nýja samningnum er fyrsti vaxtadagur 1. október 2009, en samkvæmt þeim fyrri var hann 1. janúar 2009.

Í mati Seðlabankans segir að núvirði skuldbindingarinnar nemi um 69 milljörðum króna, en það er um 4,3% af áætlaðri landsframleiðslu síðasta árs.

Þegar tillit er tekið til 20 milljarða króna innistæðu Tryggingarsjóðs innistæðueigenda og fjárfesta er núvirði skuldbindingar ríkissjóðs áætlað 49 milljarðar króna, sem eru 3,4% af áætlaðri landsframleiðslu 2010.

Seðlabankinn tekur fram að afgreiðsla þessa máls muni líklega bæta aðgengi íslenskra aðila að alþjóðlegum fjármálamarkaði verulega.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert