Kjartan Pétursson Zoëga lenti í þeirri óskemmtilegu lífsreynslu að dvelja næturlangt í Oddskarðsgöngum, þegar hann var á leið til síns heima á Norðfirði frá vinnu sinni á Reyðarfirði.
„Ég var á leiðinni heim úr vinnunni, ásamt vinnufélaga mínum, um klukkan hálf fjögur um nóttina,“ sagði Kjartan í samtali við mbl.is. „Skarðið var ófært, við komumst ekki niður Blóðbrekkuna Norðfjarðarmegin og við keyrðum inn í göngin til að vera í skjóli. Það er betra en að vera úti í kuldanum.“
Kjartan segir að þetta sé síður en svo í fyrsta skipti sem hann þarf að láta fyrirberast í göngunum næturlangt vegna ófærðar. „Þetta gerist oft, það getur verið svo mikill skafrenningur þarna,“ sagði Kjartan. „Við biðum bara eftir plógnum, við vissum hvenær hann yrði á ferðinni.“
Hann segir að ekki hafi farið illa um þá félagana í göngunum, en skarðið var rutt um morguninn og þá komst Kjartan lokst til síns heima.
„Þetta kemur örugglega fyrir aftur,“ sagði Kjartan.