Félagsfundir í verkalýðsfélögunum Afli á Austurlandi og Drífandi í Vestmannaeyjum hafa ákveðið að láta fara fram atkvæðagreiðslu um verkfall í fiskimjölsverksmiðjum sem hefjist um næstu mánaðamót.
Sverrir Mar Albertsson, formaður Afls, segir að góð samstaða hafi verið um þessa niðurstöðu. Hann segir að atkvæðagreiðslan hefjist á föstudag eða mánudag. Enginn samningafundur hefur verið boðaður í deilunni, en Samtök atvinnulífsins efast um lögmæti verkfalls þar sem samningur bræðslumanna sé hluti af aðalkjarasamningi félaganna.
Félagsfundirnir sem haldir voru í kvöld og í gær samþykktu að veita formönnum félaganna umboð til að afturkalla samningsumboð til Starfsgreinasambandsins. Það gera félögin til að styrkja samningsstöðu sína ef SA ákveður að láta reyna á lögmæti verkfallsins fyrir félagsdómi.
Fjórar fiskimjölsverksmiðjur eru á Austurlandi og tvær í Vestmannaeyjum. Þrjár aðrar verksmiðjur eru á landinu, á Akranesi, Helguvík og Þórshöfn og segir Sverrir að verkalýðsfélögum á þessum stöðum verði sent bréf þar sem vakin er athygli á að Afl og Drífandi séu að undirbúa verkfall.
Loðnuvertíðin er að hefjast og hafa skip verið að landa loðnu í dag þrátt fyrir brælu á miðunum. Í byrjun febrúar, þegar boðað verkfall á að hefjast, hefst hrognataka og hefur hún stundum staðið fram í mars. Það er því mikið fjárhagslegt spursmál fyrir verksmiðjurnar að ekki komi til verkfalls.