Það mun vera mat ýmissa þingmanna VG að samningaviðræður Íslands við ESB um aðild séu komnar í ákveðið öngstræti, ekki síst hvað varðar þá þætti sem gjarnan eru taldir til brýnustu hagsmunamála Íslendinga í viðræðunum, en það eru sjávarútvegs- og landbúnaðarmál.
Morgunblaðið hefur heimildir fyrir því, að þetta sé mat ákveðinna þingmanna VG og það hafi komið skýrt fram á sjö og hálfs tíma þingflokksfundi í fyrradag, þar sem nánast eingöngu var rætt um ESB og sjávarútvegs- og landbúnaðarmál.
Björn Valur Gíslason, þingmaður
VG í Norðausturkjördæmi, ritaði í
fyrradag á heimasíðu sína grein þar sem hann segist vera að komast á þá skoðun að Alþingi eigi að endurnýja umboð sitt til umsóknar um aðild Íslands að ESB og kanna hver vilji þingsins sé.
Björn Valur segir að þingmaður Sjálfstæðisflokksins hafi boðað þingmál strax þegar þing kemur saman um að umsóknin verði dregin til baka. Hann sagðist þó hafa efasemdir um að flokkurinn stæði við það að leggja slíka tillögu fram, en sjálfsagt væri að veita eitthvert svigrúm eftir að Alþingi kemur saman, ella ættu stjórnarliðar sjálfir að leggja slíkt mál fyrir þingið. „Ég er hins vegar að komast á þá skoðun að Alþingi verði að ræða þetta mál og endurnýja umboð sitt til umsóknarinnar,“ segir Björn Valur ennfremur í umræddri grein.
Samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins kom fram á þingflokksfundinum langa, þar sem sérfræðingar úr rýnihópum í landbúnaðar- og sjávarútvegsmálum í ESB-viðræðunum kynntu stöðuna, að viðræðurnar eru lengst á veg komnar í landbúnaðarmálum. Meðal þess sem kom fram var sérstakur spurningalisti frá ESB um það hvenær og hvernig Ísland hygðist laga íslenskan landbúnað að regluverki ESB um landbúnað. Ekki hefði verið spurt um hvort Ísland hygðist aðlaga sig regluverkinu.
Samskonar spurningalisti muni berast frá ESB um sjávarútvegsmál.
Þeirri rýnivinnu sem hefur staðið undanfarið, þar sem reynt hefur verið að kortleggja það sem er ekki í samræmi við regluverk og stofnanakerfi ESB, er nú að ljúka, að því er varðar landbúnaðarmál, og því þurfa samningamenn Íslands nú að setja fram meginmarkmið og skilyrði af hálfu Íslands í þeim málaflokki.
Það blasir því við, a.m.k. í augum einhverra þingmanna VG og fjölmargra í grasrót VG og, að því er fullyrt er, einnig í augum einhverra þingmanna Samfylkingarinnar, að þegar Ísland setji fram sín meginmarkmið og skilyrði í samningaviðræðunum við ESB í landbúnaðar- og sjávarútvegsmálum verði samningamönnum ESB líklega ekki skemmt. Allt eins er talið líklegt að þeir kunni ekki að meta kröfur Íslendinga og gætu skellt ESB-gáttinni í lás, eins og það var orðað. Því virðist ákveðinn hluti þingflokks VG nú telja, að þeir sem hafa verið hvað hlynntastir aðildar- eða aðlögunarferlinu telji nú að verði skilyrðin í samræmi við þau meginmarkmið, sem sett eru fram í áliti meirihluta utanríkismálanefndar með aðildarumsókninni, muni fulltrúar Evrópusambandsins líta þannig á, að það sé um lítið að ræða.
Lilja Mósesdóttir, þingmaður VG, sagði í gær á Facebook-síðu sinni, að á þingflokksfundinum hefði verið rætt um ágreiningsefnin varðandi aðildarumsóknina að ESB og kvótakerfið. „Það er ekki hægt að draga lengur að setja fram samningsskilyrði Íslands og tryggja verður eignarhald þjóðarinnar á sjávarauðlindinni,“ skrifar Lilja.