Stefnt er að því að landsdómur komi saman í Þjóðmenningarhúsinu og aðeins er eftir að ganga frá nokkrum formsatriðum til þess að af því geti orðið.
Þetta segir Þorsteinn A. Jónsson, skrifstofustofustjóri Hæstaréttar, sem verður jafnframt dómritari landsdóms. Takmarka verður áhorfendafjölda en lestrarsalurinn, þar sem þinghaldið færi fram, er 148 m².
Í Morgunblaðinu í dag gagnrýnir Andri Árnason, verjandi Geirs H. Haarde, gagnaöflun saksóknara Alþingis og segir að hefja eigi málsmeðferð án tafar, á grundvelli fyrirliggjandi gagna.
Gögn sem Sigríður J. Friðjónsdóttir, saksóknari Alþingis, hefur óskað
eftir, eru skjöl sem vísað er til í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.
Hún hefur sent tvær beiðnir um gögn til Þjóðskjalasafns, alls í 66
liðum, og fengið afhentar um 1700 blaðsíður. Hún býst við að þurfa
fleiri gögn af þessu tagi. Sigríði hefur verið synjað um aðgang að 61
skýrslu sem nefndin tók og tölvupóstsamskiptum Geirs en annað hefur hún
fengið.
Sigríður segir eðlilegt að hún óski eftir þessum gögnum, þótt fram komi í þingsályktunartillögunni að ákvörðun byggðist á fyrirliggjandi gögnum. Vísaði hún m.a. til þess í samtali við Morgunblaðið í dag, að lög um landsdóm geri sérstaklega ráð fyrir að rannsókn færi fram eftir að ákvörðun um málshöfðun lægi fyrir.