Heilbrigðissstofnun Vestfjarða á Ísafirði hefur ákveðið að loka hjúkrunarheimilinu á Sólborg á Flateyri. Guðmundur Björgvinsson, formaður Íbúasamtaka Önundarfjarðar, segir að atvinnulífið á Flateyri hafi orðið fyrir þungum höggum, samfélagið þoli tæpast fleiri slík áföll.
Þetta kemur fram á fréttavef Bæjarins besta á Ísafirði. Þar segir Guðmundur að þessi ákvörðun sé „Eins og að sparka í liggjandi mann.“
Hann segir atvinnulífið á Flateyri hafa orðið fyrir þungum höggum, samfélagið þoli tæpast fleiri slík áföll.
„Þetta eru þrjú stöðugildi sem sjö einstaklingar sinna í hlutastörfum og það er ekki um aðra vinnu að ræða fyrir fólkið á staðnum, auk þess eru þetta hlutastörf og því erfitt að sækja slíka vinnu yfir til Ísafjarðar," segir Guðmundur í samtali við Bæjarins besta.
Spurður að því hvort skynsamlegt sé að reka hjúkrunarheimili fyrir einungis tvo vistmenn segir Guðmundur slíka uppstillingu gefa ranga mynd af stöðunni. Fáir séu þar um þessar mundir, en nokkur fjöldi íbúa Flateyrar sé kominn á áttræðisaldur og því líklegt að þörfin fyrir þessa þjónustu aukist innan tíðar.
Á síðasta ári stóð einnig til að loka Sólborg en íbúasamtökin fengu þeirri ákvörðun hnekkt. „Ef við spyrnum ekki við fótunum nú þá óttumst við að öll störf á vegum bæjarins og í heilbrigðisþjónustu leggist af. Það er deginum ljósara að yfirmenn hjá bænum og Heilbrigðisstofnuninni vilja fara þá leið. Það er ekki uppörvandi fyrir íbúa að þurfa sífellt að vera réttlæta hjúkrunarheimilið, heilsugæsluna og skólana. Að mínu mati ætti bærinn og ríkið að sammælast um að veita þorpinu skjól og standa vörð um þessi örfáu störf á meðan samfélagið nær undir sig fótunum eftir áföll síðustu ára," segir Guðmundur á fréttavef Bæjarins besta.