Starfsmenn ÍAV komust að því í fjölmiðlum fyrr í vikunni að til stæði að segja upp allt að 170 manns af þeim 380 sem hjá fyrirtækinu starfa. Legið hefur fyrir í nokkurn tíma að fyrirséður verkefnaskortur þýddi væntanlega að skera þyrfti niður hjá fyrirtækinu. Stærsta verkefni ÍAV nú er bygging og frágangur tónlistar- og ráðstefnuhússins Hörpu, en áætlað er að því ljúki í sumarbyrjun.
Fátt er um fína drætti hvað varðar áform um stórar byggingaframkvæmdir hér á landi á næstunni. „Við sjáum ekkert framundan,“ segir Dagmar Viðarsdóttir, sem hefur umsjón með mannauðsmálum hjá ÍAV. „Það eru engin verkefni í hendi. Það er þess vegna sem við erum að grípa til þessara aðgerða. Það hafa verið hátt í 400 manns að vinna við Hörpu núna undir það síðasta, þannig að hún hefur veitt fjölda fólks atvinnu.“ Búast hafi mátt við því að grípa þyrfti til uppsagna þegar dragast tæki saman þar.
Í kjölfar fréttaflutningsins var starfsmönnum send tilkynning vegna málsins, og í gær voru haldnir vinnustaðafundir á starfsstöðvum þar sem staðan var skýrð. Þegar hafði verið ákveðið að halda slíka stöðufundi meðan á samráðsferlinu stæði, en í ljósi þeirrar stöðu sem upp kom var blásið til þeirra í gær.
Verkefnastaða annarra verktakafyrirtækja á Íslandi er í mörgum tilfellum ekkert skárri en ÍAV, og því erfitt um vik fyrir þá sem nú missa vinnuna að sækja sér vinnu til samkeppnisaðila sem margir hverjir hafa sjálfir neyðst til að segja starfsfólki upp í stórum stíl.
Töluvert hefur verið um það að iðnaðarmenn hafi ákveðið að freista gæfunnar erlendis, einkum í Noregi. Spurð að því hvort ekki sé líklegt að starfsmenn leiti til útlanda eftir vinnu játar Dagmar því. „Ég veit til þess eftir samtöl sem ég hef átt við starfsmenn að það eru mjög margir sem hafa verið að vinna í því að fá ferilsskrár sínar þýddar, og fá réttindin sín gild á Norðurlöndunum,“ segir hún.
Fjöldauppsagnir