Gjald verði tekið fyrir nýtingu orkuauðlinda

Orkustefnunefnd leggur til að sanngjarn hluti auðlindarentu vegna nýtingar orkuauðlinda í eigu opinberra aðila renni til eigendanna með beinum og gagnsæjum hætti, óháð eignarhaldi og fjármögnunarfyrirkomulagi vinnslufyrirtækjanna.

Nefndin hefur birt drög að stefnu í orkumálum og sent þau til umsagnar. Í drögunum er m.a. fjallað um hvernig mæta megi orkuþörf landsins með öruggum hætti, hvernig hægt sé að tryggja að þjóðin njóti arðs af orkuauðlindum sínum, hámörkun þjóðhagslegrar hagkvæmni við orkuvinnslu og hvernig draga megi úr notkun jarðefnaeldsneytis. Orkusparnaður, loftslagsmál og samspil ofangreindra þátta við sjálfbæra þróun leika einnig veigamikið hlutverk í umfjölluninni.

Ekki er gerð bein tillaga um að allar orkuauðlindir verði í eigu hins opinbera, en fjallað er ítarlega um hvernig megi tryggja að arðurinn af auðlindinni renni til þjóðarinnar.

Bent er á að hægt sé að láta arðinn renna til þjóðarinnar í formi hagstæðs orkuverðs. Ókostir séu hins vegar við þessa leið og sama sé að segja um þá leið að láta vinnslufyrirtæki í opinberri eigu greiða arð. Besta leiðin sé að taka gjald af auðlindanýtingu. „Sú leið felur í sér að vinnslufyrirtækin skila hluta af auðlindarentu og hagnaði sínum í formi afgjalda af auðlindanýtingu, sértækra skatta og almennra skatta. Þessi leið er hlutlaus gagnvart eignarhaldi fyrirtækjanna, sem þýðir að opinberir eigendur orkuauðlinda þurfa ekki að taka beina áhættu af virkjun þeirra frekar en þeir kjósa og geta. Þeir fá engu að síður sinn skerf af arðinum með beinum og gagnsæjum hætti.“

Skýrsla orkustefnunefndar

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert