Birgitta Jónsdóttir, alþingismaður, lýsti því í fyrirlestri í háskólanum í Toronto í vikunni þegar Julian Assange, stofnandi vefjarins, sýndi henni fyrst myndskeið af árás bandaríska hermanna á óbreytta borgara í Bagdad.
Þetta gerðist á þéttsetnu kaffihúsi í Reykjavík vorið 2010. Sagðist Birgitta hafa farið að gráta þegar hún sá myndskeiðið og í kjölfarið ákveðið að aðstoða WikiLeaks við akoma því á framfæri.
Birgitta notaði páskafrí sitt til að klippa myndskeiðið og prenta úr því myndir, sem síðan voru sendar til alþjóðlegra fjölmiðla. Myndskeiðið var síðan birt í apríl og vakti mikla athygli. Tveir blaðamenn Reuters dóu í árásinni og tvö börn særðust auk annarra þegar hermennirnir skutu á bíl sem reyndi að koma særðum til bjargar.
Fram kemur á vefnum gigaom.com, að þótt Birgitta hafi nú hætt samstarfi við WikiLeaks vegna ágreinings við Assange verji hún birtingu vefjarins á bandarískum leyniskjölum vegna þess að það sé skylda hennar. Hún hvatti einnig fjölmiðla til að styðja WikiLeaks, sem væri stærra en Julian Assange.
Hún sagði að þótt „höfuðið væri höggið" af WikiLeaks myndu þúsund önnur höfuð spretta upp.