„Nú rætast draumarnir ekki lengur,“ sagði maður sem ekki hefur lengur efni á að fara með húsbíl með Norrænu.
Hann kvaðst hafa átt húsbíl í rúm tuttugu ár og sagði að þau hjónin hefðu farið oft með Norrænu, bæði gömlu og nýju, til Hanstholm í Danmörku. Þau fóru síðast í ferðalag á húsbílnum til Evrópu sumarið 2007 og voru í fjórar vikur.
Þá kostaði ferðin fyrir hjónin og húsbílinn um 129.000 kr. Maðurinn kvaðst hafa kannað verð í fyrra og þá kostaði pakkinn um 366 þúsund. Nú kostar hann um 416.000 kr.
Í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag segir Sigurjón Þ. Hafsteinsson, framkvæmdastjóri Norrænu ferðaskrifstofunnar – Smyril Line Ísland, marga samverkandi þætti skýra hækkunina. Gengi íslensku krónunnar hefur veikst mikið frá 2007 og olíuverð hefur hækkað gríðarmikið og er enn að hækka. Þá hafa bæst við nýir skattar, t.d. farþegagjöld í Færeyjum og von á slíkum hér. Auk þess hefur gjaldskrá Norrænu verið breytt sérstaklega varðandi húsbíla.