Kjósa um verkfall í næstu viku

Fiskimjölsverksmiðja HB Granda á Akranesi.
Fiskimjölsverksmiðja HB Granda á Akranesi. Af vef HB Granda

Verkalýðsfélag Akraness er byrjað að undirbúa verkfall í fiskimjölsverksmiðjunni á Akranesi. 

Fram kemur að verkalýðsfélagið hafi átt í viðræðum við Samtök atvinnulífsins vegna sérkjarasamnings starfsmanna í fiskimjölsverksmiðjunni en án árangurs. Í framhaldi af þeim áranguslausu viðræðum hafi formaður félagsins sett sig í samband við forstjóra HB Granda, en félagið á fiskimjölsverksmiðjuna. 

„Formaður félagsins lagði fram hugmynd að lausn á deilunni en því miður höfnuðu forsvarsmenn fyrirtækisins þessari tillögu eftir sólarhrings umhugsunarfrest. Á þeirri forsendu var haldinn fundur með starfsmönnum í morgun þar sem var ákveðið að láta kjósa um verkfall en sú kosning mun væntanlega fara fram í byrjun næstu viku," segir á vefnum. 

Þá segir, að margoft hafi komið fram á heimsíðu félagsins, að Verkalýðsfélag Akraness  muni ekki undir nokkrum kringumstæðum  „taka þátt í þessum sýndarleik er lítur að samræmdri launastefnu sem forseti Alþýðusambands Íslands vinnur nú að með félaga sínum Vilhjálmi Egilssyni. Staða atvinnufyrirtækja er afar mismunandi en það liggur fyrir að til dæmis á félagssvæði Verkalýðsfélags Akraness eru gríðarlega stór og mikil útflutningsfyrirtæki og á þeirri forsendu, með hagsmuni félagsmanna að leiðarljósi, mun félagið ekki taka þátt í slíkri samræmdri launastefnu."

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert