Lögregla flutti Sigurjón Þ. Árnason, fyrrverandi bankastjóra Landsbankans, á brott frá húsnæði sérstaks saksóknara við Skúlagötu í Reykjavík laust fyrir klukkan 23 í kvöld. Að sögn Ríkisútvarpsins var Sigurjón fluttur í Héraðsdóm Reykjavíkur þar sem gæsluvarðhalds var krafist yfir honum.
Yfirheyrslur hafa staðið yfir Sigurjóni og sex öðrum einstaklingum frá því í morgun í tengslum við rannsókn á meintri stórfelldri markaðsmisnotkun hjá Landsbankanum fyrir bankahrun.
Mbl.is fékk staðfest í dag að auk Sigurjóns voru teknar skýrslur af Elínu Sigfúsdóttur, fyrrverandi forstöðumanni fyrirtækjasviðs Landsbankans, og Steinþóri Gunnarssyni, fyrrverandi forstöðumanni verðbréfamiðlunar bankans.
Í fréttum Sjónvarpsins í kvöld kom fram að Yngvi Örn Kristinsson, fyrrverandi forstöðumaður verðbréfasviðs Landsbankans og Ívar Guðjónsson, fyrrverandi forstöðumaður eigin fjárfestinga bankans, hefðu einnig verið yfirheyrðir.