Forsvarsmenn Fjölskylduhjálpar Íslands hafa hug á því að opna starfsstöð í Grundarfirði. Fyriráætlunin mælist misjafnlega fyrir, varaforseti bæjarstjórnar Grundarfjarðar segir í bloggi við frétt á DV að „þetta sé stórundarlegt.“
Ásgerður Jóna Flosadóttir, formaður Fjölskylduhjálpar Íslands, segir Grundarfjörð hafa verið valinn vegna þess að hann er miðsvæðis á Snæfellsnesi.
„Við áætlum að það séu um 70-100 fjölskyldur sem þurfa á aðstoð okkar að halda á þessu svæði,“ segir Ásgerður Jóna og segir þessa tölu byggða á upplýsingum frá fólki sem vel þekkir til á landsvæðinu.
„En bæjaryfirvöld á Grundarfirði telja að það séu ekki svona margir sem þurfa á aðstoð að halda,“ segir Ásgerður Jóna og vísar þar til bloggs varaforseta bæjarins, Þórðar Áskels Magnússonar.
„Þetta er meira en stórundarlegt. Ég er í bæjarstjórn hér í Grundarfirði sem og á ég sæti í svokallaðri velferðarvakt ásamt prestinum okkar, bæjarstjóra, verkalýðsfélagi, rauðakrossinum og félags og skólaþjónustu Snæfellsness. Við vitum greinilega mun minna um okkar mál en Ásgerður. Ef svo er rétt ber okkur að segja af okkur á stundinni. 70-100 fjölskyldur er ekkert smá hlutfall fjölskyldna hér,“ segir í bloggi Þórðar.
„Þessar tölur koma okkur hérna í bæjarstjórninni mjög á óvart,“ sagði Þórður í samtali við mbl.is. „Við erum nýbúin að funda um þessi mál og þessi fjöldi er ekki í neinum takti við það sem við upplifum. Það er ekki gott að auglýsa neyð, þar sem ekki er neyð.“
Í sama streng tekur Björn Steinar Pálmason, bæjarstjóri í Grundarfirði. „Við erum að heyra þessar tölur í fyrsta skipti,“ sagði Björn í samtali við mbl.is. „Við erum ánægð með að fá hjálparsamtök á svæðið, en mér finnst að það hefði átt að vinna þetta í samstarfi við okkur.“
Hún segir að þörfin sé mikil. „Þarna býr mikið af fólki sem byrjaði seint að greiða í lífeyrissjóð, þarna eru öryrkjar og atvinnulausir. Sem betur fer eru flestir íbúar Grundarfjarðar ágætlega settir, en við erum að tala um allt Snæfellsnesið,“ segir Ásgerður Jóna.
Starfsstöðin í Grundarfirði verður opnuð í þrjá mánuði til að byrja með og síðan verður metið, hvort ástæða sé til að halda starfseminni áfram, en það er venjan, þegar Fjölskylduhjálpin opnar nýjar stöðvar. Stöðin á Grundarfirði verður fjórða stöðin, hinar þrjár eru í Reykjavík, á Suðurnesjum og á Akureyri.
„Auðvitað væri óskandi að við þyrftum ekki að opna neinar stöðvar. En á meðan ástandið er svona, þá gerum við það,“ segir Ásgerður Jóna.