Styrkur svifryks verður sennilega yfir heilsuverndarmörkum í dag og yrði það í sjötta skiptið á þessu ári. Ástæða svifryksmengunar þennan hálfa mánuð sem liðinn er af nýju ári er fjölþætt meðal annars vegna ryks úr umhverfi, bílaumferðar og uppþyrlunar ryks af götum.
Samkvæmt upplýsingum frá umhverfis- og samgöngusviði Reykjavíkur er raki lítill i loft og skapi það skilyrði til svifryksmengunar. Þá hafi verið þurrt í veðri og vindur töluverður. Veðurspá bendi til einhverrar úrkomu á höfuðborgarsvæðinu í dag en þeir, sem eru með viðkvæm öndunarfær, ættu taka tillit til aðstæðna og fylgjast með loftgæðum á vefmæli borgarinnar sem sýnir svifryksmengun við Grensásveg.