Tilkynnt um löndunarbann á morgun

Maria Damanaki.
Maria Damanaki. Reuters

Skoskur þingmaður segir, að á fundi sameiginlegu EES-nefndarinnar, sem haldinn verður í Brussel á morgun, muni Mari Damanaki, sem fer með sjávarútvegsmál í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, tilkynna að sambandið vilji banna öllum íslenskum skipum að landa makríl í höfnum innan Evrópusambandsins. 

Vefurinn fishnews.eu hefur eftir þingmanninum Struan Stevenson, sem er varaformaður sjávarútvegsnefndar Evrópuþingsins, að Damanaki muni tilkynna EES-nefndinni að Evrópusambandið vilji koma í veg fyrir að íslensk skip landi hverskonar makrílafurðum innan ESB, bæði óunnum fiski og unnum makrílafurðum.

„Ég styð fullkomlega að framkvæmdastjórnin taki þetta örlagaríka skref," segir Stevenson. „Hegðun Íslendinga í tengslum við makrílstofninn í Norðaustur-Atlantshafi hefur verið algerlega óábyrg. Þeir voru varaðir við að ef þeir féllust ekki á raunhæfa samninga um skiptingu á þessum flökkustofni myndi Evrópusambandið grípa til harðra aðgerða. En í stað þess að draga úr veiðikvóta sínum hafa þeir aukið hann á þessu ári í 147 þúsund tonn. Þetta er gríðarmikið magn miðað við að þjóðin er aðeins 320 þúsund manns."

Stevenson segir, að löndunarbannið muni taka þegar gildi eftir fundinn á morgun. Norðmenn hafi þegar sett slíkt bann í júlí á síðasta ári.   

„Eina leiðin til að binda enda á löndunarbannið er að Íslendingar setjist aftur að samningaborðinu með raunhæft samningstilboð. Það er óviðunandi að þeir ætli sér að hrifsa svo stóran skerf en makrílveiðar Íslendinga hafa aukist úr 363 tonnum árið 2005 í 147 þúsund tonn á þessu ári."  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert