Vill stjórnsýsluúttekt vegna díoxíns

Sorpbrennslustöðin Funi.
Sorpbrennslustöðin Funi. mynd/Þórður Sigurðsson

Svandís Svavarsdóttir, umhverfisráðherra, hefur farið þess á leit við Ríkisendurskoðun að fram fari stjórnsýsluúttekt á afskiptum umhverfisráðuneytisins, Umhverfisstofnunar, sveitarfélaga og annarra aðila af sorpbrennslustöðvum sem fengu starfsleyfi fyrir 28. desember 2002.

Segir á vef ráðuneytisins, að þetta sé gert í ljósi umræðu um díoxínmengun frá sorpbrennslustöðinni Funa á Ísafirði að undanförnu og mögulega tengingu hennar við mælingar á díoxínmengun í mjólkurafurðum frá býli í nágrenni stöðvarinnar.

Markmið stjórnsýsluúttektarinnar er að leiða í ljós hvernig staðið var að undirbúningi og framkvæmd málsins og hvort hagsmuna almennings og umhverfis hafi verið gætt í þessu ferli. Jafnframt að leggja fram tillögur um úrbætur í stjórnsýslunni og eftir atvikum á lagaumhverfi stjórnvalda ef ástæða er talin til. 

Sorpbrennslu hefur nú þegar verið hætt í Funa og Umhverfisstofnun hefur lagt til að öðrum sorpbrennslum verði gert að uppfylla ströngustu mengunarvarnarkröfur innan tveggja ára. Umhverfisráðuneytið hefur þær tillögur nú til umfjöllunar.

Þá hefur komið fram opinberlega að sorpbrennslan í Vestmannaeyjum stefnir að því að auka flokkun á úrgangi sem dregur úr brennslu og mengun. Til slíkra aðgerða hefur þegar verið gripið á Kirkjubæjarklaustri. Þá hefur Umhverfisstofnun krafið sorpbrennslutöðina á Húsavík um tímasetta áætlun um úrbætur í mengunarmálum.

Matvælastofnun rannsakar nú díoxín í sauðfjárafurðum í nágrenni sorpbrennslustöðvarinnar og einnig hafa verið tekin ný sýni úr mjólk og fóðurrúllum frá Engidal í Skutulsfirði þar sem sem díoxín mældist yfir mörkum í mjólk fyrir áramót.

Mjólkursýni voru jafnframt tekin frá býlum í nágrenninu. Niðurstaðna úr sýnatöku er að vænta í fyrrihluta febrúar og mun stjórnskipuð samstarfsnefnd um sóttvarnir í kjölfarið fara yfir niðurstöður og taka í framhaldinu ákvörðun um frekari rannsóknir.  Nefndina skipa sóttvarnarlæknir og fulltrúar frá Umhverfisstofnun, Matvælastofnun og Geislavörnum ríkisins.

Þá hefur umhverfisnefnd Alþingis falið Ólínu Þorvarðardóttur þingmanni að skoða lagaumgjörð sorpbrennslu hér á landi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert