Yfirheyrslur standa enn yfir

Komið var með pítsur í húsnæði sérstaks saksóknara nú undir …
Komið var með pítsur í húsnæði sérstaks saksóknara nú undir kvöld. mbl.is/Ómar

Yfirheyrslur standa enn yfir í húsakynnum embættis sérstaks saksóknara yfir nokkrum fyrrverandi yfirmönnum Landsbankans, en gert var hlé á yfirheyrslum um kvöldmatarleytið.

Í samtali við mbl.is vildi Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari, ekki staðfesta fréttir um að hann kynni að óska eftir gæsluvarðhaldi yfir einhverjum þeirra sem nú eru yfirheyrðir. 

Sjö voru færð til yfirheyrslu hjá embættinu í dag vegna rannsóknar á meintri markaðsmisnotkun hjá Landsbankanum og eru Sigurjón Árnason, Elín Sigfúsdóttir og Steinþór Gunnarson þeirra á meðal. Feðgarnir Björgólfur Guðmundsson og Björgólfur Thor Björgólfsson eru það hins vegar ekki og Halldór Kristjánsson, annar fyrrverandi bankastjóri Landsbankans, er ekki einn sjömenninganna.

Í kvöldfréttum Stöðvar 2 sagði hins vegar að búið sé að boða Halldór til skýrslutöku, en Halldór býr nú í Kanada.

Í fréttum RÚV var fullyrt að Yngvi Örn Kristinsson, fyrrverandi forstöðumaður verðbréfasviðs Landsbankans og Ívar Guðjónsson, fyrrverandi forstöðumaður eigin fjárfestinga bankans, væru í hópi þeirra sem verið er að yfirheyra. Mbl.is hefur reynt, en ekki náð sambandi við þá tvo.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert