ESB leggur löndunarbann á íslensk skip

Maria Damanaki sjávarútvegsstjóri ESB.
Maria Damanaki sjávarútvegsstjóri ESB. FRANCOIS LENOIR

Evrópusambandið hefur tilkynnt með formlegum hætti að það hafi lagt bann á löndun makríls frá Íslandi í höfnun ESB-ríkja. Tilkynning þessa efnis var lögð fram á fundi í sameiginlegu EES-nefndinni í dag.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá blaðafulltrúa Mariu Damanaki, sjávarútvegsstjóra ESB. Bannið tekur strax gildi. Bannið er lagt á með vísun til ákvæðis í bókun 9 við EES-samninginn.

Þessi tilkynning kemur ekki á óvart því að í lok desember óskaði Damanaki eftir fundi í sameiginlegu EES-nefndinni, en hún er samráðsvettvangur ESB og EES-landanna um framkvæmd EES-samningsins, til að ræða kröfu ESB um löndunarbann.

Ekkert samkomulag hefur tekist um veiðar á makríl. ESB og Norðmenn hafa gagnrýnt veiðar Íslendinga og Færeyinga harðlega.

Löndunarbannið hefur lítil bein áhrif því íslensk skip hafa aldrei landað makrílafla í ESB-höfnum. Ekki er lagt bann við löndun á afurðum úr makríl, enda heimilar ESS-samningurinn ekki að gripið sé til viðskiptaþvingana af slíku tagi. Allar veiðar á íslenskum makríl hafa farið fram innan íslensku efnahagslögsögunnar, nema óverulegt magn sem var veitt innan færeyskrar lögsögu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert